Þroskast með því að stíga út fyrir þægindahringinn
- Magnús Þór Gunnarsson yfirgefur uppeldisfélagið fyrir grannalið öðru sinni
Magnús Þór Gunnarsson mun á næstu leiktíð leika með Bikarmeisturum Grindavíkur í Domino’s deildinni í körfubolta. Þar með mun Keflvíkingurinn Magnús verða fyrstur Íslendinga til þess að leika með öllum Suðurnesjarisunum, Keflavík, Njarðvík og Grindavík.
„Sverrir Þór hafði samband og eftir það fór boltinn bara að rúlla. Ég var ekki alveg sáttur við tímabilið í fyrra. Bæði fyrir mig persónulega og fyrir það hversu illa ég stóð mig fyrir hönd Keflavíkur,“ segir Magnús sem missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla. „Það var erfitt bæði líkamlega og andlega, sömuleiðis sú staðreynd að konan var í öðru liði,“ en Pálína Gunnlaugsdóttir, unnusta Magnúsar, leikur með Grindavík.
Alls ekki auðveld ákvörðun
Magnús hefur ásamt því að leika með Njarðvík og uppeldisfélaginu Keflavík, leikið í Danmörku um tíma. Hann segist alltaf vera opinn fyrir nýjum áskorunum. „Ef þjálfarar hafa áhuga á mér, þá hef ég alla tíð skoðað þá hluti, alveg sama hvaða lið á í hlut. Ég hef mikinn áhuga á því að bæta mig sífellt sem leikmaður, þrátt fyrir að vera uppalinn Keflvíkingur og líða vel heima hjá mér. Það var úr vöndu að ráða og þetta var alls ekki auðveld ákvörðun.“ Magnús semur til tveggja ára en samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu næsta vor. Magnús segist ekkert útiloka það að klára ferilinn í Grindavík en það fari eftir ýmsu. Bakvörðurinn segist sjá fyrir sér að leika í 3-4 ár til viðbótar.
Sérðu frekari tækifæri á að vinna titla með Grindavík á þessum tímapunkti? „Nei og já. Ég horfi á þetta þannig að það lið sem ég spila með, það er sterkara á þeim tímapunkti,“ segir Magnús sem er þekktur fyrir allt annað en hógværð. „Keflavík er með frábært lið, en Grindavík líka. Ég er að fara í gott lið.“
Erfiðara að ganga til liðs við Njarðvíkinga
„Það skiptir miklu máli að spila fyrir sitt félag, sem er auðvitað best. Menn þroskast líka á því að fara að spila annars staðar og læra eitthvað nýtt, að fara út fyrir þægindarhringinn. Það er oft gott að breyta til.“ Magnús hefur áður söðlað um eins og áður segir, en hann gekk til liðs við Njarðvíkinga árið 2009. „Það var töluvert erfiðara að fara yfir til Njarðvíkur á sínum tíma. Ég verða að viðurkenna það. Ég er ennþá á lífi eftir það og það hefur líklega bara gert mig sterkari.“ Magnús þekkir vel til margra leikmanna Grindvíkinga enda hefur hann leikið með þeim mörgum áður, bæði hjá landsliðinu og hjá Keflavík og Njarðvík. „Ég veit því alveg hvað ég er að fara út í. Ég held að Sverrir geti hjálpað mér mikil til þess að verða betri leikmaður. Það er fólk þarna sem hefur trú á því að ég sé ekki alveg búinn á því. Ég hlakka til að standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar,“ segir skyttan Magnús að lokum.