Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrjú Suðurnesjalið í fjórum efstu sætum annarrar deildar
Skotinn Kenneth Hogg sækir að markverði KF. Hogg skoraði bæði mörk Njarðvíkinga. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 27. júní 2021 kl. 11:22

Þrjú Suðurnesjalið í fjórum efstu sætum annarrar deildar

Dramatískt jafntefli hjá Grindavík í Lengjudeildinni

Það er hart barist í annarri deild karla í knattspyrnu en í fjórum efstu sætum deildarinnar sitja öll þrjú liðin frá Suðurnesjum eftir leiki helgarinnar.

KV - Reynir (4:2)

Nýliðar Reynis hafa vermt toppinn að undanförnu en Reynismenn hafa aðeins misst flugið í síðustu tveimur leikjum, fyrst misstu þeir „unninn leik“ gegn Magna niður í jafntefli í uppbótartíma og á föstudag töpuðu þeir fyrir KV sem komst í efsta sætið fyrir vikið.

Reynismenn voru fyrri til að skora en KV jafnaði undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik stjórnaði KV leiknum og þeir skoruðu þrjú mörk á átta mínútna kafla (71'–79'). Reynir skoraði síðast markið í leiknum en með tapinu eru þeir komnir í fjórða sæti með þrettán stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mörk Reynis: Hörður Sveinsson (21') og Elfar Máni Bragason (82').


Þróttur - Völsungur (3:0)

Þróttarar hafa verið að færast ofar á stigatöflunni, þeir tóku á móti liði Völsungs á laugardag og höfðu þægilegan sigur.

Fyrsta mark leiksins kom úr vítaspyrnu og það skildi liðin að í hálfleik. Í þeim síðari skoruðu Þróttarar tvö til viðbótar og eru nú komnir í annað sæti deildarinnar með fimmtán stig.

Mörk Þróttar: Alexander Helgason (10' víti og 88') og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson (55').


Njarðvík - KF (2:1)

KF frá Fjallabyggð mætti til Njarðvíkur á laugardag og úr varð hörkurimma. Sterkur vindur setti ákveðinn svip á leikinn.

Njarðvík komst yfir í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá Skotanum Kenneth Hogg. Njarðvík hafði vindinn í bakið í fyrri hálfleik og sótti þá ívið meira. Í seinni hálfleik snerist dæmið við, KF var meira með boltann og uppskáru eitt mark, Njarðvíkingar sköpuðu sér nokkur hættuleg færi úr skyndisóknum en annars var pressan stíf á þá. KF sótti fast að marki Njarðvíkur síðustu mínúturnar og nokkrum sinnum skall hurð nærri hælum en Njarðvíkingar stóðust áhlaupið og fögnuðu kærkomnum sigri. Njarðvík er nú komið í þriðja sæti með fjórtán stig.

Mörk Njarðvíkur: Kenneth Hogg (6' og 11').

Haraldur Guðmundsson, þjálfari Reynis, ásamt leikmönnum liðsins fylgdust með leik Njarðvíkur og KF en Reynir og Njarðvík mætast í toppbaráttunni á Blue-vellinum í Sandgerði næsta miðvikudag.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leik Njarðvíkur og KF eins og má sjá afraksturinn í myndasafni neðst á síðunni.


Kórdrengir - Grindavík (1:1)

Grindavík náði yfirhöndinni í seinni hálfleik í jöfnum baráttuleik liðanna í öðru og þriðja sæti. Það leit út fyrir að Grindvíkingar ætluðu að hafa betur allt þar til á fjórðu mínútu uppbótartíma að Kórdrengir náðu að jafna leikinn. Svekkjandi jafntefli en Grindavík heldur sér í öðru sæti, einu stigi fyrir ofan Kórdrengi og þremur stigum ofar en ÍBV og Fjölnir.

Mark Grindavíkur: Sigurður Bjartur Hallsson (68').

Sigurður Bjartur Hallsson heldur áfram að skora fyrir Grindavík. Mynd úr safni Víkurfrétta

Njarðvík - KF (2:1) | 2. deild karla 26. júní 2021