Íþróttir

Þrjú stig hjá Keflavík í 100. leik Kristjáns þjálfara
Laugardagur 23. maí 2009 kl. 18:26

Þrjú stig hjá Keflavík í 100. leik Kristjáns þjálfara


Aukaspyrna Jóhanns Birnis Guðmundssonar á 52. mínútu af vinstri kantinum endaði í marki Fram og reyndist vera sigurmark Keflavíkur í Pepsi-deildinni í dag. Leikur Keflavíkur í dag var eins og veðrið, það skiptust á skin og skúrir. Liðin áttu hvort um sig sex skot að marki. Keflavíkurvörin opnaðist líka rækilega á tímabili og mikil hætta skapaðist við Keflavíkurmarkið. Þeir áttu líka fína takta framan við mark Framara.





Þannig átti Jón Gunnar Eysteinsson flottan skalla á 20. Mínútu, þar sem boltinn fór hátt upp og skall ofan á þverslá í Frammarkinu. Færeyingurinn Simun Samuelsen átti tvö flott skot á 23. og 27. mínútu sem bæði voru varin. Skotin frá Simun geta verið mjög lúmsk og hættuleg fyrir andstæðinginn. Hörður Sveinsson sýndi einnig góða takta. Hann tók við langri sendingu inn í vítateig Fram, en boltinn rúllaði framhjá markinu. Skömmu fyrir leikhlé áttu Keflvíkingar glæsilega sókn þar sem mikil hætta var í teig Fram. Magnús Þorsteinsson tók við knettinum í miðjum vítateignum en sendi knöttinn rétt yfir.

Keflvíkingar byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti og gerðu atlögu að marki Fram.





Á 52. Mínútu fengu Keflvíkingar dæmda aukaspyrnu á vinstri kantinum. Jóhann Birnir Guðmundsson tók aukaspyrnuna og sendi knöttinn hátt inn í teiginn. Þar virtist Simun Samuelsson vera að taka við boltanum en hann snerti ekki botlann sem rataði beinustu leið í mark Framara.

Eftir markið frá Jóhanni sóttu Framarar í sig veðrið og talsverð hætta skapaðist á stundum við Keflavíkurmarkið þar sem vörnin opnaðist. Keflvíkingum tókst þó að halda hreinu og léku manni færri síðustu mínúturnar eftir að Jóni Gunnari Eysteinssyni var vikið af leikvelli eftir brot á Paul McShane þar sem Jón Gunnar nældi sér í sitt annað gula spjald.

Sigurinn var sanngjarn og Kristján Guðmundsson þjálfari var sáttur við leik sinna manna í viðtali eftir leik. Leikurinn í dag var 100. opinberi leikurinn hjá Kristjáni sem þjálfari Keflavíkur.



Ljósmyndir: Ellert Grétarsson