Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrjú mikilvæg stig til Víðis
Jóhann Þór reyndist Dalvíkingum oft erfiður og á endanum tryggði hann Víðismönnum sigur með marki úr víti. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 26. júlí 2021 kl. 09:02

Þrjú mikilvæg stig til Víðis

Í gær léku Víðismenn við Dalvík/Reyni í þriðju deild karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram við mjög erfiðar aðstæður, hvassan vind og vætu. Veðrið hafði talsverð áhrif á gæði leiksins en erfitt var að hemja boltann og var baráttan í fyrirrúmi. Víðir hafði að lokum sanngjarnan 1:0 sigur.

Víðismönnum hefur ekki vegnað sem best í deildinni í ár og oftar en ekki hafa úrslitin ekki fallið með þeim. Það breyttist í gær í miklum baráttuleik þar sem Víðismenn voru öllu beittari.

Í fyrri hálfleik léku Víðismenn gegn sterkum vindi en þeir náðu þó að skapa sér nokkur ágætis færi. Leikmenn áttu í miklum vandræðum með að halda boltanum inn á vellinum, hvað þá að ná upp einhverju spili. Eftir frekar jafnan og markalausan fyrri hálfleik mætti Víðisliðið mjög ákveðið í þann seinni og tók stjórn á leiknum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víðir sóttu nær látlaust undan vindi allan seinni hálfleikinn og oft vantaði aðeins herslumuninn til að klára sóknirnar. Dalvíkingar náðu einni og einni skyndisókn og það hefði verið dæmigert fyrir gengi Víðis í ár ef þeir hefðu stolið sigrinum úr einni slíkri. Það var hins vegar ekki inni í dæmi Víðismanna sem pressuðu stíft á vörn Dalvíkinga og sóttu nær látlaust.

Það var ekki fyrr en undir lok leiksins að Jóhann Þór Arnarsson lék inn í teiginn þar sem Hammed Obafemi Lawal fékk boltann og Dalvíkingar brutu á honum. Vítaspyrna dæmd sem Jóhann tók og skoraði hann af öryggi úr henni (87'). Jóhann var upphafsmaðurinn að sókninni en hann hafði verið duglegur að sækja á vörn Dalvíkur og skapa þar usla.

Víðismenn höfðu að lokum sanngjarnan sigur og lönduðu þremur mikilvægum stigum. Þeir eru í áttunda sæti deildarinnar með sextán stig, einu stigi á eftir Dalvík/Reyni, en Tindastóll og Einherji eru í fallsætunum með tíu stig.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Víðisvellinum í gær og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst í fréttinni.

Víðir - Dalvík/Reynir (1:0) | 3. deild karla 25. júlí 2021