Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrjár vítaspyrnur Keflavíkur dugðu ekki
Laugardagur 22. ágúst 2009 kl. 19:14

Þrjár vítaspyrnur Keflavíkur dugðu ekki

Þrátt fyrir að hafa verið betri aðilinn í leiknum gegn KR í Keflavík í dag, þá máttu Keflvíkingar sætta sig við ósigur. Augnabliks kæruleysi á þriggja mínútna kafla fljótlega í síðari hálfleik kostaði tvö mörk og svo fór að leikar fóru 2-1 fyrir KR. Það var þó ekki þannig að Keflavík ekki fengi tækifæri til að rétta sinn hlut. Þrisvar var dæmd vítaspyrna á KR en aðeins ein þeirra rataði inn fyrir marklínuna. Hinar tvær varði Andre Hansen markvörður KR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur Steinarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík í sumar úr vítaspyrnu á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks viðureignar liðanna í dag. Keflvíkingar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta sér þau færi sem gáfust.

Á 57. og 60. mínútum síðari hálfleiks skoruðu KR-ingar mörk sín í leiknum. Gunnar Örn Jónsson skoraði fyrra markið af löngu færi og af því virtist óvænt mark. Markið varð ekki til að vekja Keflvíkinga, því Björgólfur Takefúsa bætti við marki þremur mínútum síðar.

Keflvíkingar fengu tvö gullin tækifæri til að rétta sinn hlut, því tvívegis voru dæmdar vítaspyrnur á KR. Markvörður KR-inga var hins vegar öryggið uppmálað og varði spyrnurnar með glæsibrag en það kom í hlut Guðmundar Steinarssonar að taka allar vítaspyrnur Keflavíkur í dag en kom aðeins inn einni.

Eftir leiki dagsins er Keflavík um miðja deild með 25 stig.



Myndir úr leik dagsins í Keflavík. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson