Þrjár frá Hnefaleikafélagi Reykjaness í æfingabúðir í Svíþjóð
Hnefaleikafélag Reykjaness er að senda frá sér þrjár stelpur á æfingabúðir í Svíþjóð. Æfingabúðirnar ganga undir nafninu Golden Girl Training Camp og eru eingöngu fyrir hnefaleikakonur.
Þetta er í áttunda skipti sem búðirnar eru haldnar en þetta er í fyrsta skipti sem að íslenskar stelpur taka þátt. Þær eru þó ekki einar um það en alls eru níu íslenskar stelpur að fara.
„Stelpurnar okkar ætla sér allar stóra hluti í vetur. Stelpurnar sem fara héðan eru Sandra Valsdóttir (33), Margrét Guðrún Svavarsdóttir (21), fyrrum Íslandsmeistari og hnefaleikakona ársins, og Hildur Ósk Indriðadóttir (35). Margrét og Hildur ætla sér báðar að keppa á boxkvöldi Ljósanætur núna í september,“ segir í frétt frá Hnefaleikafélagi Reykjaness.