Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þríþrautarfólk lætur gott af sér leiða
Hjólakraftur við Grunnskólann í Sandgerði. 3N veittu styrk til Hjólakrafts á dögunum. VF-mynd/dagnyhulda
Föstudagur 31. mars 2017 kl. 06:00

Þríþrautarfólk lætur gott af sér leiða

- Styrkja Hjólakraft og kaup á handhjóli

Þríþrautardeild UMFN, 3N, lét gott af sér leiða á dögunum og veitti tvo styrki, annars vegar til Hjólakrafts og hins vegar til Jóhanns Rúnars Kristjánssonar sem undanfarið hefur safnað sér fyrir handhjóli. Styrkirnir eru ágóði af hjólreiðakeppninni Geysi Reykjanesmóti sem haldin er í Sandgerði á hverju vori.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svanur Már Scheving afhenti Jóhanni styrkinn fyrir hönd 3N. Handhjólið sem Jóhann safnar nú fyrir kostar um eina milljón króna. VF-mynd/dagnyhulda

Jóhann lamaðist fyrir neðan brjóst í mótorhjólaslysi í maí 1994 og hefur notast við hjólastól síðan. Hann hefur því aðeins getað stundað útivist að takmörkuðu leiti í hjólastól. Undanfarna mánuði hefur hann safnað fyrir handhjóli og segir styrkinn frá 3N því koma sér vel. „Mig langar til að geta farið út að hjóla með konunni minni og krökkunum. Svona hjól kostar rúma milljón og það er meira en ég ræð við,“ segir hann. Að sögn Jóhanns tekur Tryggingastofnun ekki þátt í kaupum á handhjóli, heldur einungis í kaupum á lífsnauðsynlegum búnaði eins og hjólastól. Hjólið sem Jóhann er að safna fyrir er frá Þýskalandi og heitir Hase bike. Hann er nú langt kominn með söfnunina og vilji fólk leggja henni lið má leggja framlög inn á eftirfarandi reikning: 0542-14-407373  kt. 221273-3629.

Tryggingastofnun tekur ekki þátt í kaupum á handhjóli og því ákvað Jóhann að safna fyrir hjóli eins og því á myndinni.

Þorvaldur Daníelsson tekur við styrknum 3N. Svanur Már Scheving afhenti fyrir hönd 3N, þríþrautardeildar UMFN. VF-mynd/dagnyhulda

3N veitti einnig styrk til Hjólakrafts en það er verkefni á vegum Þorvaldar Daníelssonar sem miðar að því virkja ungt fólk til hjólreiða. Þorvaldur býður upp á hjólreiðaæfingar fyrir börn í bæjarfélögum víða um landið, þar á meðal í Grindavík, Garði og Sandgerði. Hann kemur með racer-hjól á æfingarnar og er kostnaðurinn við verkefnið því þó nokkur og ljóst að styrkurinn frá 3N kemur sér vel fyrir starfið. Þorvaldur segir fjármögnun á verkefninu geta verið höfuðverk en að hann hafi verið einstaklega heppinn í gegnum tíðina og fengið styrki víða að. Eftirspurn eftir æfingum Hjólakrafts er mikil og reglulega fær Þorvaldur fyrirspurnir frá fólki um landið um það hvort Hjólakraftur sé væntanlegur. Að sögn Þorvaldar er þátttaka í Hjólakrafti fyrir mörgum leið til sigrast á sjálfum sér. „Í upphafi miðaðist verkefnið við að ná til krakka sem hafa átt í erfiðleikum með sjálf sig og til dæmis lokað sig af í tölvuleikjum eða öðru. Síðan hefur hópurinn orðið æ fjölbreyttari.“ Hann kveðst oft sjá mun á krökkum eftir að þau byrja að taka þátt í Hjólakrafti. Til dæmis taki mörg þeirra framförum í námi enda sé ljóst að útiveran, áreynslan og ekki síst félagsskapurinn hafi góð áhrif.

[email protected]