Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þristur Remy Martin í blálokin tryggði Keflavík sigurinn
Remy Martin setur niður sigurkörfuna á lokasekúndum leiksins. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 19. október 2023 kl. 22:08

Þristur Remy Martin í blálokin tryggði Keflavík sigurinn

Keflavík hafði betur á lokasekúndunum í kaflaskiptum leik gegn Val í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Það var Remy Martin sem var hetja heimamanna þegar hann setti niður þrist í blálokin og tryggði Keflvíkingum eins stigs sigur.

Keflavík - Valur 87:86

Eftir jafnan fyrsta leikhluta (19:22) hrukku gestirnir í gang og virtust hreinlega ætla að keyra yfir heimamenn. Valsmenn juku forskot sitt í öðrum leikhluta um níu stig og leiddu því með tólf stigum í hálfleik (39:51).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar mættu hrikalega grimmir til seinni hálfleiks og á fyrstu fjórum mínútum þriðja leikhluta setti Sigurður Pétursson niður þrjá þrista og skyndilega var staðan orðin jöfn, 51:51. Eftir það var mjög jafn þar til Valsmenn skutust sex stigum fram úr í lok þess þriðja (60:66).

Sigurður Pétursson hleður í þrist ...
... og setur hann niður.

Valsmenn komust í tólf stiga forystu þegar það var innan við fimm mínútur til leiksloka (70:82) en þá settu heimamenn í yfirdrifið og gáfu allt sem þeir áttu í leikinn.

Þessi hrikalega troðsla Urban Oman kveikti í Keflvíkingum.

Igor Maric setti niður þrjá þrista og gestirnir komust hvorki lönd né strönd gegn öflugum varnarleik Keflvíkinga.

Jaka Brodik jafnaði leikinn í 84:84 þegar rúm hálf mínúta var eftir og Kristófer Acox kom Val í tveggja stiga forystu skömmur síðar (84:86).

Það voru 25 sekúndur eftir á klukkunni þegar Keflavík fór í lokasóknina sína. Þeir fóru sér engu óðslega, Remy Martin var með boltann gegn Kristófer og í stað þess að reyna að jafna tók hann þriggja stiga skot sem steinlá og allt varð vitlaust á pöllunum (87:86).

Með rúma sekúndu til stefnu voru Valsmenn ekki langt frá því að „stela“ sigrinum en skot Kristófers geigaði og Keflvíkingar fögnuðu sterkum sigri.

Maric var stigahæstur Keflavíkurliðsins með átján stig. Næstir voru Martin með sautján, Sigurður Pétursson og Dolezaj sextán hvor og Oman ellefu.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni. Í spilaranum má sjá sigurkörfu Remy Martin í myndskeið af Karfan.is.

Keflavík - Valur (87:86) | Subway-deild karla 19. október 2023