Þristur Remy Martin í blálokin tryggði Keflavík sigurinn
Keflavík hafði betur á lokasekúndunum í kaflaskiptum leik gegn Val í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Það var Remy Martin sem var hetja heimamanna þegar hann setti niður þrist í blálokin og tryggði Keflvíkingum eins stigs sigur.
Keflavík - Valur 87:86
Eftir jafnan fyrsta leikhluta (19:22) hrukku gestirnir í gang og virtust hreinlega ætla að keyra yfir heimamenn. Valsmenn juku forskot sitt í öðrum leikhluta um níu stig og leiddu því með tólf stigum í hálfleik (39:51).
Keflvíkingar mættu hrikalega grimmir til seinni hálfleiks og á fyrstu fjórum mínútum þriðja leikhluta setti Sigurður Pétursson niður þrjá þrista og skyndilega var staðan orðin jöfn, 51:51. Eftir það var mjög jafn þar til Valsmenn skutust sex stigum fram úr í lok þess þriðja (60:66).
Valsmenn komust í tólf stiga forystu þegar það var innan við fimm mínútur til leiksloka (70:82) en þá settu heimamenn í yfirdrifið og gáfu allt sem þeir áttu í leikinn.
Igor Maric setti niður þrjá þrista og gestirnir komust hvorki lönd né strönd gegn öflugum varnarleik Keflvíkinga.
Jaka Brodik jafnaði leikinn í 84:84 þegar rúm hálf mínúta var eftir og Kristófer Acox kom Val í tveggja stiga forystu skömmur síðar (84:86).
Það voru 25 sekúndur eftir á klukkunni þegar Keflavík fór í lokasóknina sína. Þeir fóru sér engu óðslega, Remy Martin var með boltann gegn Kristófer og í stað þess að reyna að jafna tók hann þriggja stiga skot sem steinlá og allt varð vitlaust á pöllunum (87:86).
Með rúma sekúndu til stefnu voru Valsmenn ekki langt frá því að „stela“ sigrinum en skot Kristófers geigaði og Keflvíkingar fögnuðu sterkum sigri.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni. Í spilaranum má sjá sigurkörfu Remy Martin í myndskeið af Karfan.is.