Þristur á síðustu sekúndu tryggði Keflavík sigur gegn Grindavík
Keflvíkingar tryggðu sér sigur á Grindvíkingum á síðustu sekúndu þegar Urban Oman setti niður þrist í mögnuðum öðrum leik liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta í Blue höllinni í bítlabænum. Lokatölur urðu 84-83.
Leikurinn var hnífjafn allan tímann. Keflavík var með níu stiga forskot eftir fyrsta leikhluta en Grindavíkingar svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í þrjú stig þegar flautað var til leikhlés. Þriðji leikhluti endaði jafn en Grindvíkingar voru með frumkvæðið í lokaleikhlutanum. Lokamínúturnar og sekúndurnar voru gríðarlega spennandi og munurinn lítill en Grindavík var tveimur stigum yfir þegar níu sekúndur voru eftir. Keflavík var með boltann þegar sex sekúndur voru eftir, boltinn barst til Urban Oman sem var óvaldaður rétt fyrir utan þriggja stiga línuna og brást ekki bogalistin á ögurstundu og setti niður skotið. Þegar boltinn datt í gegnum körfuhringinn rann leiktíminn út og heimamenn tryggðu sér ótrúlegan sigur.
Leikurinn bað upp á allt sem skemmtilegur körfuboltaleikur getur gert. Þegar 36 sekúndur voru eftir misstu Keflvíkingar boltann til Kane sem tróð með tilþrifum og sendi skilaboð til stuðningsmanna Keflavíkur sem létu hann og Basile heyra það allan leikinn en þeir báðir gáfu þeim vissulega tilefni til þess með tuði og leiðinda skilaboðum. Þeir þurftu hins vegar að lúta í gras þegar yfir lauk.
Á annað þúsund áhorfendur fylltu Blue höllina og stemmningin var mögnuð. Heimamenn voru með stóran hóp stuðningsmanna sem létu vel í sér heyra allan tímann og gestirnir voru fjölmennir líka. Allt eins og það á að vera í hörku leik.
Sitgahæstir hjá Keflavík voru Jaka Brodnik með 20 stig en hann hefur verið einn besti maður liðsins í undanförnum leikjum. IvanMaraic var með 16 stig og Dolezai með 14 stig.
Hjá Grindavík var Basile gríðarlega öflugur en hann skoraði 25 stig og Kane var með 19 stig. Hinn magnaði Ólafur Ólafsson var með 14 stig.
Sigurbjörn Daði tók viðtöl í lok leiks.
Lokaskotið sem tryggði Keflavík sigur.