Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þristunum kyngdi niður í fyrsta leikhluta
Elías Bjarki Pálsson setur niður eina af þremur þriggja stiga körfum sínum í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 29. desember 2022 kl. 23:13

Þristunum kyngdi niður í fyrsta leikhluta

Það var tekið forskot á gamlárskvöld þegar Njarðvíkingar buðu upp á flugeldasýningu í fyrsta leikhluta grannaslags Njarðvíkinga og Keflvíkinga í Subway-deild karla í körfuknattleik sem var leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld. Njarðvíkingar gerðu 40 stig í þessum fyrsta leikhluta og þar af rötuðu tíu þristar rétta leið.

Njarðvík - Keflavík 114:103

(40:18, 24:29, 22:25, 28:31)

Eftir fyrsta leikhluta voru Keflvíkingar átján stigum á eftir erkifjendum sínum en þeir gáfust ekki upp og tóku að vinna upp muninn. Njarðvík náði mest 23 stiga mun (50:27) en Keflavík kom honum niður í sautján stig fyrir hálfleik (64:47).

Logi Gunnars búinn að sulla niður þristi.

Með hörku komu gestirnir muninum niður í níu stig áður en þriðji leikhluti var allur (80:71). Áfram hélt Keflavík að klóra í bakkann og þegar um ein og hálf mínúta voru eftir kom Dominykas Milka muninum niður í átta stig (109:101). Milka hljóp hins vegar á sig í kjölfarið þegar hann fékk dæmda á sig tæknivillu og var vísað úr húsi. Dedrick Basile setti vítakastið niður en David Okeke minnkaði muninn í sjö stig (110:103), lengra komst Keflavík ekki og sanngjarn sigur, sem heimamenn sköpuðu með frábærri byrjun, var í höfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Dominykas Milka var stigahæstur Keflvíkinga en hann var með 23 stig og níu fráköst.

Keflavík sýndi mikinn karakter með að leggja fyrsta leikhluta til hliðar og vinna sig inn í leikinn á ný með þolinmæði, ef þeir hefðu hafð aðeins meiri tíma er aldrei að vita hvað hefði getað gerst. Þetta sígilda „ef“ og „hefði“.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 29/4 fráköst/16 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 23, Jose Ignacio Martin Monzon 22/8 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 13, Mario Matasovic 11/6 fráköst/4 varin skot, Lisandro Rasio 7/7 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7, Ólafur Helgi Jónsson 2, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Jan Baginski 0.
Keflavík: Dominykas Milka 23/9 fráköst, Valur Orri Valsson 17/11 stoðsendingar, Igor Maric 16/6 fráköst, Eric Ayala 15/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 15/6 fráköst, David Okeke 13/4 fráköst, Ólafur Ingi Styrmisson 4/4 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 0, Magnús Pétursson 0, Nikola Orelj 0, Grétar Snær Haraldsson 0, Frosti Sigurðsson 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og myndasafn er neðst á síðunni.

Njarðvík - Keflavík (114:103) | Subway-deild karla 29. desember 2022