Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 10. mars 2003 kl. 09:08

Þrír titlar í hús hjá Njarðvík, tveir hjá Keflavík

Seinni dagur bikarúrslita yngri flokka í körfuknattleik fór fram í gær að Ásvöllum. Fjórir leikir fóru fram og áttu Njarðvíkingar fulltrúa í þremur þeirra. Njarðvík sigraði í 11. flokki karla eftir sigur á ÍR og þar með vann félagið þrjá titla um helgina en Keflavík tvo.Njarðvík varð bikarmeistari í 11. flokki karla eftir 75-56 sigur á ÍR í fyrsta úrslitaleik dagsins. Jóhann Árni Ólafsson hjá Njarðvík var valinn maður leiksins en Jóhann skoraði 22 stig, tók 24 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í leiknum. Félagi hans Hjörtur Hrafn Einarsson, sem var að spila þrjá flokka upp fyrir sig átti einnig prýðisleik en Hjörtur skoraði 13 stig og tók 12 fráköst. Sveinbjörn Claessen var atkvæðamestur hjá ÍR með 20 stig og 5 stoðsendingar.

Haukar urðu bikarmeistari í 10. flokki kvenna eftir 81-26 sigur á Njarðvík í öðrum úrslitaleik dagsins. Pálína María Gunnlaugsdóttir hjá Haukum var valinn maður leiksins en Pálína skoraði 30 stig, stal 15 boltum, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í leiknum. Félagi hennar Helena Sverrisdóttir átti einnig prýðisleik og náði þrefaldri tvennu en Helena skoraði 26 stig, tók 12 fráköst, stal 11 boltum og gaf 6 stoðsendingar. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir var atkvæðamest hjá Njarðvík með 11 stig og 14 fráköst.

ÍR varð bikarmeistari í Unglingaflokki karla eftir 73-72 sigur á Njarðvík í æsispennandi og frábærum úrslitaleik. Hreggviður Magnússon hjá ÍR var valinn maður leiksins en Hreggviður skoraði 23 stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar en 18 stiga hans komu í fyrri hálfleik þegar ÍR-ingar náðu 12 stiga forskoti. Félagi hans Ómar Sævarsson átti einnig prýðisleik og varð með 19 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar og ekki má gleyma þætti Ólafs Þórissonar sem gerði sigurkörfuna 2,3 sekúndum fyrir leikslok. Guðmundur Jónsson var atkvæðamestur hjá Njarðvík með 17 stig og Sigurður Þór Einarsson gerði 15.

Úrslit og tölfræði af heimasíðu KKÍ, kki.is!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024