Þrír stórleikir í boltanum kvöld
Suðurnesjalið leika í kvöld mikilvæga leiki. Grindavík í Landsbankadeild karla, Njarðvík í 1. deild karla og kvennalið Kerflavíkur í 1. deildinni.
Búast má við hörkuleik þegar Njarðvíkingar taka á móti toppliði Vals í 1. deildinni í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19.00 á Njarðvíkurvelli.
Síðast þegar liðin áttust við fóru Valsmenn með sigur af hólmi 1-0 þar sem Þórhallur Örn Hinriksson skoraði sigurmarkið á 23. mínútu leiksins. Sem stendur þá er Valur á toppi 1. deildar með 22 stig eftir 12 leiki og geta því með sigri í kvöld náð 5 stiga forystu í deildinni. Nái þeir grænklæddu hins vegar að sigra komast þeir í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig, þessa stundina er Njarðvík í 8. sæti með 16 stig, jafn mörg og Vöslungur.
Annar stórleikur verður á Suðurnesjum í kvöld kl. 19.00 og fer hann fram á Keflavíkurvelli. Þar taka Keflavíkurstúlkur á móti liði HK/Víkings og geta tryggt sér efsta sætið í riðlinum með sigri.
Liðin hafa mæst tvisvar það sem af er tímabilinu og hafa Keflavíkingar unnið báða leiki nokkuð sannfærandi, þann fyrri 1-0 og þann seinni 7-0.
Keflavík hefur verið algerlega óstöðvandi í sumar og hafa unnið alla sína leiki og er markatalan 108-4 í leikjunum 10.
Þá halda Grindvíkingar til Reykjavíkur þar sem þeir mæta Fram í Landsbankadeildinni. Bæði lið eru í fallhættu og þurfa svo sannarlega á stigunum að halda. Leikurinn hefst kl. 19.15.