Þriggja stiga keppni í Grindavík!
Grindavík og Hamar/Selfoss buðu upp á mikla flugeldasýningu í leik sínum í Röstinni í Grindavík í kvöld. Lokatölur voru 134-111 heimamönnum í vil eftir hreint ótrúlegar 40 mínútur sóknarlega séð.
Strax á fyrstu mínútunum gáfu Grindvíkingar tóninn fyrir það sem koma skyldi. Jóhann Ólafsson skoraði tvær þriggja stiga körfur og Páll Axel Vilbergsson bætti annari við. Staðan 9-0 og þristarnir farnir að fljúga. Samtals hittu liðin úr 14 slíkum skotum í fyrsta leikhluta, Grindvíkingar úr 10 af 14 og Hamar/Selfoss úr öllum sínum fjórum skotum.
Staðan að loknum þessum einkennilega leikhluta var 39-31 og í hálfleik stóðu leikar þannig að Grindvíkingar höfðu 11 stiga forystu, 71-60. Vissulega voru hlutirnir að ganga upp í sókninni en vörn þeirra var eins og gatasigti og ekki það sem til er ætlast þegar eitt sterkasta lið landsins mætir einu af lægst skrifuðu liðum deildarinnar.
Hamars/Selfoss-liðar mættu inn í seinni hálfleikinn tilbúnir til að láta til sín taka og náðu að minnka muninn allt niður í sjö stig, 76-69. Þá hrukku Páll Axel og hinn magnaði Darrel Lewis í gang þar sem Páll lét þristunum hreinlega rigna yfir gestina og Lewis keyrði miskunnarlaust upp að körfunni. Hamars/Selfoss menn áttu ekkert svar fyrir utan góða takta hjá Marvin Valdimarssyni sem hélt þeim á floti. Marvin þessi var sá eini í liði gestanna sem skoraði meira en eina körfu í 3. leikhluta.
Í fjórða leikhluta var löngu ljóst í hvað stefndi þar sem ekkert lát var á þristunum sem flugu inn á færibandi allan leikinn. Grindvíkingar hittu úr 24 af 46 þriggja stiga skotum sínum í leiknum þar sem Páll Axel setti 8 og Lewis 7. Alls skoraði Páll 30 stig, en Darrel Lewsis setti heil 46 stig.
Auk þeirra voru Jóhann Ólafsson og þjálfarinn, Kristinn Friðriksson að skila sínu vel. Stóri strákurinn hjá Grindavík, Justin Miller, átti ágætis dag þar sem hann setti 21 stig og varði 6 skot. Þá er vert að geta framlags Ágústs Hilmars Dearborns sem, þrátt fyrir að skora ekki eitt einasta stig, gaf 11 stoðsendingar á þeim stutta tíma sem hann var inná.
Þrátt fyrir sigurinn sagðist Kristinn allt annað en sáttur við upplitið á sínum mönnum í leiknum. „Þetta var leiðindaleikur. Við náðum ekki upp baráttu og vorum daprir að sjá í vörninni. En sigur er sigur. Við þurftum lítið að hafa fyrir hlutum í sóknarleiknum þannig að við náðum ekki upp baráttu í vörninni. Ég vona að þetta verði betra í næsta leik.“
Tölfræði leiksins