Þriðji sigurinn í röð hjá grænum
Njarðvík vann í gærkvöldi sinn þriðja leik í röð í 2. deild karla í knattspyrnu þegar liðið lagði HK á Kópavogsvelli 1 - 3. Það leit ekki vel út í upphafi leiks fyrir þá grænueftir að HK hafði náð forystunni strax á 2. mínútu og auk þess fengu þeir gott tækifæri til þess að auka forystuna skömmu síðar. Njarðvíkurliðið virkaði alls ekki tilbúið í leikinn fyrstu mínúturnar. Leikurinn jafnaðist þó og Njarðvíkingar komust meira og meira inn í leikinn. Það var ekki fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiks sem jöfnunarmarkið leit dagsins ljós eftir að vítaspyrna hafði verið dæmd á HK. Rafn Vilbergsson skoraði örugglega úr vítinu og jafnaði.
Njarðvíkingar komu hressari til leiks í síðari hálfleik og voru mun sterkari aðilinn. Magnús Örn Þórsson skoraði síðan annað mark Njarðvíkinga eftir klukkutíma leik með góðu skoti eftir snarpa sókn. Á 83. mínútu kom loks rothöggið þegar Ísak Örn Einarsson skoraði með góðu skoti utan úr teig og tryggði Njarðvíkingum sigurinn.
Njarðvíkingar er nú konir með 11 stig og sitja í 5 - 6 sæti.