Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðji sigur Njarðvíkinga í röð (Video)
Föstudagur 28. október 2005 kl. 10:51

Þriðji sigur Njarðvíkinga í röð (Video)

Haukar fóru vel af stað í Ljónagryfjunni í gærkvöldi en máttu sætta sig við tap gegn Njarðvíkingum, 78-74. Njarðvík vermir því toppsætið með Grindvíkingum en bæði lið hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína.

Gestirnir úr Hafnarfirði hófu leikinn á pressuvörn og höfðu sérstaklega góðar gætur á Jeb Ivey. Að loknum 1. leikhluta var staðan 19-22 fyrir Hauka og Njarðvíkingar fóru oft illa að ráði sínu með slökum sendingum sem rötuðu í hendur gestanna.

Í öðrum leikhluta voru Haukar mun sterkari og náðu að vinna upp 10 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 33-43, og fór DeeAndre Hulett fyrir Haukum og var drjúgur í stigaskorinu. Baráttugleðin skein úr andliti Hauka og spiluðu þeir stífa vörn og nokkrir leikmanna þeirra komnir með þrjár villur eða fleiri.

Heimamenn komu ákveðnari til seinni hálfleiks og þegar um ein og hálf mínúta var til loka þriðja leikhluta náðu Njarðvíkingar að komast yfir. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 63-62 Njarðvíkingum í vil.

Í fjórða leikhluta virtist sem allt ætlaði upp úr að sjóða. Halldór Karlsson, fyrirliði Njarðvíkinga, fékk þá dæmda á sig óíþróttamannslega villu eftir viðskipti sín við Haukamanninn Sigurð Þór Einarsson. Halldór mótmælti dómnum ákaft og fékk í kjölfarið tæknivillu dæmda á sig og fyllti þar með upp í villukvótann sinn og varð frá að víkja. Haukar fengu því fjögur vítaskot og settu niður þrjú og staðan því 70-73 Haukum í vil.

Jeb Ivey var fljótur til og jafnaði leikinn í 73-73 með þriggja stiga skoti strax í næstu sókn. Þegar skammt var til leiksloka höfðu Njarðvíkingar aukið muninn 77-74 og Haukum misfórst að setja niður þriggja stiga skot til að jafna leikinn. Njarðvíkingar fengu boltann þegar um 7 sekúndur voru til leiksloka og brotið var á Jeb Ivey, hann setti niður seinna vítið og staðan 78-74 og sigurinn í höfn.

Vörn Njarðvíkinga small loks saman á lokasprettinum og skilaði góðum sigri í spennandi leik. Nokkuð var um mistök á báða bóga en Njarðvíkingar töpuðu m.a. 23 boltum í leiknum og Haukar 19.

Jeb Ivey var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu með 24 stig en honum næstur var Friðrik Stefánsson með 17 stig og 13 fráköst. DeeAndre Hulett gerði 26 stig fyrir Hauka.

Sigurður Þór Einarsson, leikmaður Hauka, lék upp alla yngri flokkana í Njarðvík en hefur verið hjá Haukum í nokkur ár. Sigurður átti góðan leik í gær, gerði 15 stig og spilaði oft góða vörn á Jeb Ivey.

„Við áttum bara að vinna leikinn og þetta var bara aumingjaskapur í okkur, við misstum þetta niður þegar Njarðvíkingarnir fóru að taka fast á okkur,“ sagði Sigurður. „Við eigum að geta unnið Njarðvík, við erum með mjög góðan heimavöll og tökum þá í heimaleiknum,“ sagði Sigurður að lokum.

„Seinni hálfleikur var þokkalegur, mun betri en fyrri hálfleikurinn hjá okkur,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir leikinn. „Haukar voru að spila ofboðslega fast, helst til of fast. Við brugðumst ekki nægilega vel við þessu og fórum að tuða í dómaranum í stað þess að vera sterkari á boltann. Haukarnir eru góðir og það kemur mér ekkert á óvart að þeir séu að spila vel. Við vorum einfaldlega ekki tilbúnir í upphafi leiks en ég er virkilega sáttur við að hafa náð sigri í leiknum,“ sagði Einar að lokum.

Video: Myndskeið úr leiknum


Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni

VF-myndir/ Jón Björn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024