Þriðji ósigurinn í röð
Lokaskotið hjá Isma´il Muhammad geigaði í Borgarnesi í dag og því fögnuðu Skallagrímsmenn tveggja stiga sigri, 100-98, gegn Keflavík í Iceland Express deild karla. Með sigrinum komst Skallagrímur í 3. sæti deildarinnar með 18 stig en Keflvíkingar sitja í því fimmta með 14 stig. Magnús Þór Gunnarsson var allt í öllu í Keflavíkurliðinu í síðari hálfleik en hans framlag dugði ekki til að þessu sinni.
Þegar liðin áttust við í deildarkeppninni í Sláturhúsinu fyrr á þessari leiktíð hafði Keflavík sigur í framlengdum leik og spennan var einnig í fyrirrúmi í dag. Axel Kárason kom Skallagrím í 2-0 en Sebastian Hermanier jafnaði metin í 2-2 en hann var að leika sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í dag.
Leikurinn hófst af krafti og bæði lið voru að leika hraðann bolta. Minna fór fyrir vörninni og Skallagrímsmenn hreinlega gleymdu undirstöðuatriðum eins og að stíga út í upphafi leiks og rifu Keflvíkingar niður hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. Jón N. Hafsteinsson kom snemma inn á leikvöllinn hjá Keflavík af varamannabekknum og kom með mikla baráttu inn í Keflavíkurliðið. Engu að síður voru það Borgnesingar sem leiddu 26-24 að loknum fyrsta leikhluta.
Pétur Sigurðsson opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og kom heimamönnum í 29-24 og við tók þriggja stiga flugeldasýning hjá Borgnesingum sem gerðu alls sjö þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Í stöðunni 35-33 tóku heimamenn að auka bilið milli liðanna. Tvær þriggja stiga körfur í röð breyttu stöðunni í 41-33 og ef boltinn vildi ekki ofan í fyrir utan þá fékk Darrell Flake hann í hendurnar og var duglegur við að koma honum í gegnum netið.
Þegar skammt var til hálfleiks fékk Jón N. Hafsteinsson sína þriðju villu á meðan heimamenn slóu hvergi slöku við og höfðu 17 stiga forskot í leikhléi 60-43. Darrell Flake var kominn með 19 stig hjá Skallagrím í hálfleik en hjá Keflavík höfðu Isma´il Muhammad og Sebastian Hermanier báðir gert 11 stig í hálfleik.
Í upphafi þriðja leikhluta fékk Jón N. Hafsteinsson sína fjórðu villu sem var helst til of ódýr og varð því frá að hverfa. Til þess að byrja með héldu Skallagrímsmenn uppteknum hætti og munurinn var um 14-17 stig. Keflvíkingar, með Magnús Þór Gunnarsson að vopni, minnkuðu muninn í 10 stig áður en leikhlutinn var úti og gerðu þeir níu síðustu stig leikhlutans. Þar á meðal voru tvær þriggja stiga körfur frá Magnúsi.
Sverrir Þór Sverrrisson opnaði svo fjórða og síðasta fjórðunginn með því að skora úr sniðskoti og fá vítaskot að auki. Staðan var orðin 82-75 og Keflvíkingar komnir inn í leikinn að nýju. Borgnesingar héldu Keflavík enn um sinn fjarri og Dimitar og Jovan komu muninum í 10 stig að nýju með sinni hvorri þriggja stiga körfunni, 90-80, en Keflavík gerði þá sex stig í röð og staðan því 90-86.
Ávallt reyndu heimamenn að halda Keflavík í skefjum en þegar mínúta var til leiksloka setti Magnús Gunnarsson niður enn eina þriggja stiga körfuna og minnkaði muninn í 98-96. Skallagrímsmönnum misfórst að skora í næstu sókn en í sókninni þar á eftir janfaði Sverrir Þór Sverrisson muninn í 98-98 þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Það var svo Axel Kárason sem keyrði upp að Keflavíkurkörfunni þegar 5 sekúndur voru til leiksloka en brotið var á honum í skotinu. Á vítalínunni var Axel öryggið uppmálað og skoraði úr báðum vítunum.
Fimm sekúndur eftir og Keflavík tók innkast, boltinn barst til Muhammad sem brunaði upp völlinn og skaut lokaskotinu um svipað leyti gall lokaflautan en skotið var fjarri því að fara ofan í og Borgnesingar fögnuðu því sigri, 100-98. Frábær endurkoma Keflvíkinga var því unnin fyrir bí en þeir gerðu vel að komast aftur inn í leikinn eftir að Skallagrímsmenn höfðu skotið þá í kaf.
Magnús Þór Gunnarsson var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 30 stig en Darrell Flake gerði 29 hjá Skallagrím.
Keflavík er sem fyrr segir í 5. sæti deildarinnar og Skallagrímsmenn í því þriðja. Næsti leikur Keflavíkur er þann 9. janúar gegn FSu í Lýsingarbikarnum og Skallagrímur mæti ÍR þann 8. janúar í sömu keppni.
VF-mynd/ úr safni