Þriðji ósigurinn í röð
Þriðji tapleikur Keflavíkur í röð í Landsbankadeild karla í knattspyrnu var á Árbæjarvelli í gærkvöldi er Keflavík beið 2-1 ósigur gegn Fylki. Sævar Þór Gíslason gerði bæði mörk Fylkismanna en Guðmundur Steinarsson minnkaði muninn fyrir Keflavík. Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, fylgdist með sínum mönnum úr stúkunni á meðan Kristinn Guðbrandsson var við stjórnartaumana. Keflvíkingar fengu í ofanálag að líta enn eitt rauða spjaldið.
Bæði lið voru spræk í upphafi leiks og á 12. mínútu átti Daniel Severino fast skot frá vinstra vítateigshorninu rétt yfir Fylkismarkið. Skömmu síðar færðist atgangurinn í teiginn hjá Keflavík þar sem markaskorarinn Sævar Þór skaut fast að marki en vörn Keflavíkur hafði viðkomu í boltanum sem fór yfir markið.
Þegar líða tók á fyrri hálfleik tóku Fylkismenn hægt og sígandi völdin á vellinum og áttu meira í leiknum en Keflvíkingar vörðust vel og áttu ágætis sóknarrispur. Á 39. mínútu tók Guðmundur Steinarsson aukaspyrnu við hægra vítateigshornið en Fjalar Þorgeirsson var vel staðsettur og varði spyrnuna örugglega.
Liðin gengu til leikhlés í stöðunni 0-0 en strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks dró til tíðinda. Fylkismenn sendu þá góða stungusendingu inn fyrir Keflavíkurvörnina á Christian Christiansen sem gerði sig líklegan til að skjóta að marki en Buddy Farah kom þá aðvífandi og felldi Christian í teignum og vítaspyrna réttilega dæmd. Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, sá þann kostinn vænstan að gefa Buddy rautt spjald í ofanálag og þar með léku Keflvíkingar einum manni færri það sem eftir lifði leiks. Sævar Þór fór á punktinn á 48. mínútu og skoraði af öryggi. Fylkir 1-0 Keflavík.
Skömmu eftir mark Fylkis gerði Kristinn eina breytingu á Keflavíkurliðinu. Severino og Hallgrímur fóru af leikvelli og inn komu Ólafur Berry og Magnús Þorsteinsson.
Sævar Þór hafði ekki sungið sitt síðasta og á 67. mínútu kom hann Fylki í 2-0 þar sem hann daðraði við rangstöðuna en annar aðstoðardómarinn sá ekkert athugavert við markið. Fylkir 2-0 Keflavík.
Þrátt fyrir að vera manni færri voru Keflvíkingar ekki á þeim buxunum að gefast upp og áttu nokkrum sinnum ágætisfæri og loksins á 89. mínútu leiksins kom Guðmundur Steinarsson boltanum í netið eftir fína fyrirgjöf. Fylkir 2-1 Keflavík og þannig lauk leiknum þrátt fyrir að dómarinn hefði bætt við um 5 mínútum.
„Þetta er alveg skelfilegt, útlitið var ágætt hjá okkur áður en við hálfpartinn gáfum þeim markið,“ sagði Hólmar Örn Rúnarson í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. Hólmar varð að fara meiddur af leikvelli en hann fékk mikinn krampa í hægri fótinn er hann var að skjóta að marki Fylkis. „Ég tognaði smávegis og fór af velli en ég stefni að því að vera orðinn góður fyrir Evrópuleikinn gegn Dungannon,“ sagði Hólmar sem sagðist nú vera hættur að fylgjast með stigatöflunni í deildinni. „Við þurfum bara að fara að ná okkur í þrjú stig í deildinni en það er Evrópuleikurinn sem við ætlum að einbeita okkur að núna,“ sagði Hólmar að lokum.
Keflavík situr í 7. sæti deildarinnar með 7 stig eftir 7 leiki. Næsti leikur í deildinni verður gegn Valsmönnum þann 21. júní á Laugardalsvelli. Í millitíðinni mætir Keflavík Dungannon Swifts í Inter Toto keppninni en liðin leika tvo leiki, heima og að heiman.
Staðan í deildinni
[email protected]