Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðji Keflavíkursigurinn á tímabilinu
Hörður Axel sækir á Loga Gunnars.
Fimmtudagur 5. janúar 2017 kl. 21:36

Þriðji Keflavíkursigurinn á tímabilinu

Unnu Njarðvík í botnslag 80:73

Keflvíkingar höfðu nauman sigur á grönnum sínum úr Njarðvík í efstu deild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Sláturhúsinu í Keflavík. Keflvíkingar voru með pálmann í höndunum nánast allan leikinn en Njarðvíkingar gerðu gott áhlaup undir lokin sem kom þó ekki í veg fyrir sjö stiga sigur heimamanna, 80:73. Með sigri náðu Keflvíkingar að rífa sig frá botninum og sitja nú í 6. sæti með 12 stig. Njarðvíkingar eru við botninn í 10. sæti með átta stig líkt og Haukar sem eru í 11. sæti. Snæfellingar eru svo stigalausir á botninum. Keflvíkingar hafa nú sigrað alla þrjá leikina gegn Njarðvík í vetur í deild og bikar.

Keflvíkingar leiddu allt frá upphafi leiks og náðu mest 15 stiga forskoti. Heimamenn spiluðu boltanum mun betur sín á milli og áttu t.a.m. 22 stoðsendingar gegn 10 hjá Njarðvík. Engin stig komu af bekknum hjá Njarðvík, þeir töpuðu frákastabaráttunni og töpuðu fleiri boltum en gestgjafarnir. Það munaði um minna, auk þess sem framlag vantaði frá fleiri Njarðvíkingum.
Amin Stevens var með 25 stig og 17 fráköst í leiknum fyrir Keflvíkinga. Magnús Már Traustason var mjög góður en leikmenn eins og Reggie og Hörður Axel eiga meira inni, sem er sterkt fyrir Keflvíkinga.

Logi Gunnarsson hélt sínum mönnum á floti með því að setja niður sjö þrista úr 16 tilraunum. Logi skoraði 28 stig í leiknum en eins og áður segir komust fimm menn á blað hjá þeim grænklæddu, þar af skoruðu þrír 64 af 73 stigum.

Tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024