Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðja jafntefli Njarðvíkinga í röð: Björn hetja Víðismanna
Laugardagur 26. maí 2007 kl. 14:21

Þriðja jafntefli Njarðvíkinga í röð: Björn hetja Víðismanna

Njarðvíkingar gerðu markalaust jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi og er þetta þriðja jafntefli Njarðvíkinga í röð í 1. deild karla. Njarðvíkingar gerðu 2-2 jafntefli gegn Leikni í fyrstu umferð deildarinnar og svo 1-1 jafntefli gegn KA á Keflavíkurvelli í annarri umferð deildarinnar. Eftir jafnteflið í gær eru Njarðvíkingar í 7. sæti 1. deildar með 3 stig.

 

Næsti deildarleikur Njarðvíkinga í 1. deild er gegn Þór Akureyri þann 1. júní og fer leikurinn fram á Akureyri og hefst kl. 19:15.

 

GG og Víðir léku í 3. deildinni í gær. GG gerði 1-1 jafntefli á Grindavíkurvelli gegn Augnablik en það var Ronald G. Jónsson sem gerði mark GG manna á 21. mínútu en gestirnir jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks og þar við stóð.

 

Víðismenn nældu sér í góðan útisigur er þeir lögðu Kára 2-1 á Akranesvelli. Björn Bergmann Vilhjálmsson gerði sigurmark Víðismanna þegar um tvær mínútur voru til leiksloka og því er Víðir enn á toppi B-riðils 3. deildar með 6 stig að loknum tveimur umferðum og er eina liðið í riðlinum sem ekki hefur tapað stigi í tveimur fyrstu umferðunum.

 

Reynismenn mæta Þór Akureyri á Sparisjóðsvellinum í dag í Sandgerði og hefst leikurinn kl. 16:00 en Reynismenn eru í 4. sæti 1. deildar með 4 stig eftir tvo leiki og geta jafnað Grindavík og Fjarðabyggð á toppnum með sigri í dag en Grindavík og Fjarðabyggð deila efsta sætinu bæði með 7 stig.

 

Mynd: www.umfn.isSnorri Már Jónsson, varnarmaður í Njarðvíkurliðinu í baráttunni á Ólafsvík í gærkvöldi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024