Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þriðjudagur 6. júní 2000 kl. 23:28

Þriðja jafntefli Grindvíkinga, en sigur hjá Keflvíkingum.

Grindvíkingar gerðu í kvöld markalaust jafntefli við Leiftur í blíðskapar veðri á Ólafsfirði. Fátt markvert gerðist í leiknum, sem var lítið fyrir augað og Leiftursmenn heldur sterkari. Meira um þann leik síðar, en Grindvíkingar sitja í fimmta sæti Landssímadeildarinnar með 9 stig. Keflvíkingar unnu góðan sigur á Stjörnunni, 1-0, á Keflavíkurvelli í kvöld. Sigurinn skaut Keflvíkingum upp í þriðja sæti Landssímadeildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir KR-ingum sem verma efsta sætið með 12 stig. Heimamenn þurftu ekki að bíða lengi eftir marki í þessum leik, en það var sjálfur markahrókurinn, Guðmundur Steinarsson sem negldi boltanum upp í þaknetið af markteig Stjörnunnar. Þetta var sjötta mark Guðmunds, sem er markahæstur í Landssímadeildinni. Keflvíkingar sóttu af krafti eftir markið, en án nokkurs árangurs. Leikurinn var heldur daufur og virtist allur botn detta úr leik heimamanna í síðari hálfleik. Á 38. mínútu fékk varnarjaxlinn Jakob Már Jónharðsson, Keflvíkingur að líta rauða spjaldið hjá Kristni Jakobssyni dómara leiksins. Við það þyngdist ágangur Stjörnunnar, án þess þó að þeir næðu að skapa sér hættuleg færi. Bestu menn Keflvíkinga í leiknum voru þeir Gunnar Oddsson, Zoran Ljubicic og Guðmundur Steinarsson. Þess má geta að Gunnar Oddsson, fyrirliði, jafnaði leikjamet Sigurðar Björgvinssonar í efstu deild, en það eru 267 leikir og að öllu óbreyttu mun Gunnar bæta metið í næsta leik liðsins gegn Fram á Laugardalsvelli nk. mánudag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024