Þrenna frá Oduro og Grindavík er komið úr fallsæti
Í gær unnu Grindvíkingar góðan sigur á Gróttu í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Með sigrinum fór Grindavík úr fallsæti upp í það sjöunda.
Það var famherjinn öflugi Christabel Oduro sem skoraði öll mörk heimamanna en þær eru fáar sem eiga erindi í hraða og kraft þessarar mögnuðu knattspyrnukonu.
Grindvíkingar voru við stjórnina allan fyrri hálfleik og Christabel Oduro opnaði markareikninginn á 25. mínútu þegar hún slapp ein inn fyrir vörn Gróttu. Staðan 1:0 í hálfleik.
Áfram héldu Grindvíkingar að sækja í seinni hálfleik og snemma náðu þær að tvöfalda forystuna þegar Írena Björk Gestsdóttir átti frábæra sendingu inn í teig gestanna þar sem Oduro fékk nægan tíma til að taka boltann niður og ná skoti. Markvörður Gróttu var nálægt því að verja skotið en yfir línuna lak boltinn og staða Grindvíkinga orðin vænleg.
Grindvíkingar voru búnar að vera mikið betri aðilinn í leiknum en eftir að þær náðu tveggja marka forystu datt liðið full aftarlega og fékk að launum mark á sig (73'). Þær voru undir töluverðri pressu og spennustigið orðið hátt en Oduro tryggði Grindavík sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma (90’+3).
Grindavík er komið með ellefu stig í sjöunda sæti og er nú tveimur stigum frá fallsæti.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli og fleiri myndir úr leiknum má sjá í myndasafni neðst í fréttinni.