Þrekmótaröðin 2009
Vinsældir ýmis konar þol- og þrekíþrótta hafa aukist umtalsvert síðustu ár í takt við aukna heilsuvitund landsmanna. Þetta sést best í gríðarlegri aukningu keppenda í Þrekmeistaranum, þríþrautarkeppnum, víðavangshlaupum og ýmsum öðrum íþróttum.
Þann 5. mars sl. urðu stór og merk tímamót í sögu þrekkeppna á Íslandi þegar nokkrir leiðandi aðilar í þrekþjálfun á Íslandi tóku höndum saman um stofnun nýrrar þrekmótaraðar, "Þrekmótaraðarinnar 2009". Þessir aðilar eru Lífsstíll í Keflavík, BootCamp, CrossFitSport í Sporthúsinu og CrossFit-Iceland í World Class, en einnig eru umræður í gangi um að Þrekmeistarinn á Akureyri taki þátt. Progress ehf mun svo halda utan um heildarskipulag mótaraðarinnar.
Mótaröðin mun samanstanda af fjórum ólíkum keppnum sem allar eiga það sameiginlegt að gera miklar kröfur til þols, þreks og styrks keppenda.
Fyrsta keppnin í þessari mótaröð verður "Lífsstíls-Meistarinn" og fer fram næstu helgi, laugardaginn 14.mars, í Íþróttahúsinu í Keflavík. Það er líkamsræktarstöðin Lífsstíll sem sér um þá keppni. Keppnin gengur út á að fara í gegnum 10 þol- og þrekgreinar á eins litlum tíma og hægt er, og verður keppt í einstaklings- og liðakeppnum beggja kynja og í tveimur aldursflokkum.
Aðrar keppnir í mótaröðinni verða CrossFit leikar CrossFitSport og CrossFit Iceland sem fram fara 23. maí, BootCamp keppni í byrjun hausts og loks Þrekmeistarinn á Akureyri í nóvember.
Mótaröðin verður stigakeppni þar sem gefin eru stig fyrir 10 efstu sætin í hverri keppni og telja þrjár bestu keppnir hvers einstaklings til úrslita í heildarstigakeppninni. Í lok ársins verður haldinn fögnuður þar sem meistarar Þrekmótaraðarinnar 2009 verða verðlaunaðir.
Sú staðreynd að Þrekmótaröðin samanstendur af fjórum ólíkum keppnum sem hver um sig gerir einstakar kröfur til þreks keppenda, gerir mótaröðina að einstökum íþróttaviðburði á Íslandi.
Fyrsta keppnin, Lífsstíls-Meistarinn, fer fram næstu helgi og líkur skráningu í hana á hádegi, miðvikudaginn 11.mars nk. Nánar um keppnina og fyrirkomulag má finna á www.lifsstill.net/lifsstilsmeistarinn
www.lifsstill.net
www.bootcamp.is
www.crossfiticeland.is
www.crossfitsport.is
www.vaxak.is
www.progress.is