Þóttist vera Sara Sigmunds
Óprúttinn aðili selur varning í nafni crossfit konunnar heimsfrægu undir fölsku flaggi.
Crossfit konan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir lenti í því að óprúttinn aðili bjó til Facebook síðu í hennar nafni þar sem hann þykist vera hún og selur þjálfunarprógramm og varning í hennar nafni, án hennar vitundar og samþykkis. Síðan heitir Sara Sigmundsdóttir og má finna hér. Ragnheiður Sara segir frá þessu á Facebook síðu sinni og biður fólk um að fara inn á fölsku síðuna og tilkynna hana til Facebook svo henni verði lokað.
„Ef þetta væri aðdáendasíða væri ég mjög ánægð með hana en þetta er ekki aðdáendasíða. Þarna er einhver að þykjast vera ég og sá aðili eða aðilar eru að selja vörur og þjálfunarprógrömm undir mínu nafni sem tengjast mér ekki á neinn hátt,“ segir Ragnheiður Sara meðal annars í tilkynningunni. Falska síðan er með rúmlega 36.000 fylgjendur og hefur nú breytt yfirskrift síðunnar í „aðdáendasíða tileinkuð Söru Sigmunds,“ eftir að málið komst upp.
Á síðunni má finna fjölda mynda og myndbanda af Ragnheiði Söru en einnig texta sem skrifaður er í fyrstu persónu og á að telja fólki trú um að þar sé Ragnheiður Sara sjálf að segja frá. „Þetta er 91 kílóa sigur-snörunin frá keppninni í gær. Íslandsmet og ég er mjög stolt af því að hafa sett það. Þessi keppni var svo skemmtileg, ég get ekki beðið eftir að gera þetta aftur!“ segir meðal annars á fölsku síðunni, en þar er einnig slóð á vefsíðu þar sem hægt er að kaupa lyftingarprógramm undir hennar nafni á tíu dollara.