Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þorvaldur Örlygsson er nýr þjálfari Keflvíkinga
Jón Ben formaður stjórnar Keflavíkur og Þorvaldur Örlygsson nýr þjálfari handsala samninginn. VF-myndir/pket.
Laugardagur 10. október 2015 kl. 11:09

Þorvaldur Örlygsson er nýr þjálfari Keflvíkinga

Auðveld ákvörðun, segir nýi þjálfarinn.

„Þetta var auðveld ákvörðun og ég þurfti ekki að hugsa mig þegar Keflvíkingar hringdu í mig,“ segir Þorvaldur Örlygsson en hann var í dag ráðinn þjálfari 1. deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu.

„Hér er reynsla, kunnátta og efniviður og í raun allt til alls. Keflavík er með sögu og bærinn með mikla íþróttahefð. Það er þess vegna mjög spennandi að taka við þessu verkefni. Mér líst mjög vel á leikmannahópinn en munum auðvitað skoða hvað við gerum í þeim efnum, varðandi styrkingu á honum til að hjálpa okkur í því að vinna okkur sæti á nýjan leik í Pepsi-deild.“

Jón G. Benediktsson, nýr formaður Knattspyrnudeildar segir að nýtt fólk í stjórn sé afar spennt fyrir ráðningu Þorvaldar sem hafi mikla reynslu. Hann þjálfaði lið HK síðustu tvö árin og er með U19 landslið Íslands. Áður hefur hann þjálfað lið eins og Fram í efstu deild á Íslandi. Þorvaldur lék á sínum knattspyrnuferli m.a. í efstu deild á Englandi með Nottingham Forest og Stoke og síðan með Oldham. Þá lék hann í nokkur ár eftir heimkomu frá Englandi með KA áður en hann var ráðinn til Fram en þar var hann í fimm ár. Þorvaldur var síðan í eitt ár hjá ÍA en síðustu tvö árin hjá HK. Þorvaldur lék 41 leik á landsliðsferli sínum og skoraði 7 mörk.
„Ég er mjög bjartsýnn og gríðarlega spenntur. Nú fá leikmenn hins vegar nokkra vikna frí en svo byrjum við nýja knattspyrnutíð eftir það,“ sagði nýr þjálfari Keflavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024