Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þórsarar of sterkir fyrir Njarðvíkinga
Föstudagur 10. febrúar 2012 kl. 09:15

Þórsarar of sterkir fyrir Njarðvíkinga


Þór Þorlákshöfn skellti Njarðvík öðru sinni í Iceland Express deild karla þetta tímabilið þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur í Icelandic Glacial Höllinni voru 84-66 Þórsurum í vil sem gerðu út um leikinn snemma í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar mættu ákveðnir til leiks en koðnuðu niður þegar Þórsarar hertu tökin og fóru að leika fastan bolta. Njarðvíkingar hafa nú 12 stig og eru í 10. sæti deildarinnar.

Ólafur Helgi Jónsson var full bráður í upphafi leiks og fékk tvær villur á fyrstu tveimur mínútunum í liði gestanna. Njarðvíkingar voru þó sterkari aðilinn í upphafi leiks, komust í 4-9 með þriggja stiga körfu frá Ólafi Helga. Varnarleikur Njarðvíkinga var afbragðsgóður í upphafi og Oddur Birnir Pétursson kom inn með góða baráttu af bekknum í Njarðvíkurliðinu.

Heimamenn í Þór hertu tökin í öðrum leikhluta, vörnina léku þeir stíft og Njarðvíkingar áttu erfitt með að komast upp að körfu Þórsara. Gestirnir voru að gera klaufaleg mistök í öðrum leikhluta, sitgu illa út og heimamenn fengu nokkrum sinnum fleiri en eitt tækifæri til að skora úr sóknum sínum. Þá fór það ekki framhjá neinum að hinn reyndi Cameron Echols átti fá svör við Matthew Hairston hjá Þór.

Þórsarar komust fljótt í 32-22 með sterkum varnarleik en Njarðvíkingar áttu einnig í basli með Darrin Govens, hann leitaði töluvert undir körfuna og áttu bakverðirnir Elvar Friðriksson og Óli Ragnar Alexandersson ekki roð við honum.

Á meðan gestirnir voru að gera mörg mistök sigldu heimamenn fram úr, unnu oft auðvelda bolta og þegar flestir héldu að Njarðvík væri að halda inn í lokasókn kom ótímabært skot, Þór tók frákastið og Blago Janev brunaði upp og skoraði með sniðskoti um leið og hálfleiksflautan gall. Sterkur lokasprettur Þórsara á fyrri hálfleik en þeir unnu annan leikhluta 24-10 með feiknasterkum varnarleik.

Echols var ekki að finna taktinn hjá Njarðvík í upphafi síðari hálfleiks svo Páll Kristinsson tók við keflinu og var besti maður gestanna í kvöld með mikilli baráttu. Heimamenn voru þó mun ákveðnari og komust í 54-39 eftir tvo þrista í röð frá hinum hávaxna Blago Janev sem kunni vel við sig í kvöld fyrir utan þriggja stiga línuna. Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta gerði Guðmundur Jónsson fyrstu stig íslenskra leikmanna í liði Þórs en atvinnumennirnir höfðu þá leitt Þórsliðið áfram. Það var svo Hairston sem lokaði leikhlutanum eftir sóknarfrákast þegar hann setti niður flautukörfu úr stökkskoti af endalínunni og Þór leiddi 65-45 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Njarðvíkingar áttu aldrei von í fjórða leikhluta og fengu yngri og óreyndari leikmenn liðanna að klára leikinn þar sem lokatölur voru 84-66 Þórsurum í vil sem hafa sýnt að þeir eru með góð tök á Njarðvíkingum þetta tímabilið.

Njarðvík: Travis Holmes 16/5 fráköst, Cameron Echols 13/9 fráköst, Páll Kristinsson 9/6 fráköst, Elvar Már Friðriksson 9/6 fráköst, Styrmir Gauti Fjeldsted 7/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 4/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 3, Oddur Birnir Pétursson 2, Óli Ragnar Alexandersson 2, Maciej Stanislav Baginski 1

Umfjöllun karfan.is



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024