Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þorleifur Ólafsson: Stefnum á 4. sætið
Föstudagur 23. febrúar 2007 kl. 12:53

Þorleifur Ólafsson: Stefnum á 4. sætið

Grindvíkingar unnu góðan sigur á Tindastól í gærkvöldi en leikurinn var jafn og spennandi uns um þrjár mínútur voru til leiksloka. Á þeim kafla fannst Tindastól á sig hallað í dómgæslunni en Grindvíkingar gerðu þá út um leikinn með mikilvægum þriggja stig körfum og sterkri vörn. Lokatölur leiksins voru 109-99 Grindavík í vil og nú vill Þorleifur fara að sjá í drápseðlið í Grindavíkurliðinu.

 

,,Það er enn von um að ná heimavallarréttinum. Ég held þó að það sé mikilvægara fyrir okkur að reyna að spila almennilega allan leikinn í næstu leikjum. Þetta var góður sigur í gær og við höfum ekki landað mörgum svoleiðis í vetur. Hver sigur er okkur mikilvægur alveg sama hvar við verðum í töflunni. Mikilvægt er fyrir liðið að finna í sér drápseðlið áður en í úrslitakeppnina kemur,” sagði Þorleifur.

 

Á Grindavíkurliðið enn eftir að sýna sitt besta í vetur?

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, gekk þá brosmildur inn í spurningu blaðamanns sem beint var til Þorleifs og svaraði henni... ,,já, ég held það, er það ekki?” sagði Friðrik og leit á Þorleif og var horfinn aftur með stríðnispúkaglott á vör. Þorleifur fékk að lokum að svara spurningunni og sagði að liðið ætti miklu meira inni og þá sérstaklega í vörninni.

 

,,Við ræddum það inni í klefa eftir leik að við spiluðum vörn í þrjár mínútur í leiknum og unnum leikinn þannig að ég tel að við eigum helling inni. Við stefnum bara að fjórða sætinu og ætlum okkur að vinna Snæfell í Hólminum með von um að þeir tapi stigum í næstu leikjum,” sagði Þorleifur að lokum.

 

Næsti leikur Grindavíkur er gegn Skallagrím í Röstinni svo mæta þeir Snæfell í Hólminum og svo Keflavík í Röstinni. Síðasti leikur liðsins í deildinni verður gegn toppliði KR svo það eru aðeins risaleikir eftir hjá Grindvíkingum.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024