Þorleifur: Erum í góðum gír
Rimma Grindavíkur og Skallagríms sem hefst í kvöld í úrslitakeppni Iceland Express deild karla verður sú fimmta í röðinni hjá þessum liðum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar síðan árið 1996. Grindavík tekur á móti Skallagrím kl. 19:15 í Röstinni í kvöld og sagði bakvörðurinn Þorleifur Ólafsson að Grindvíkingar ættu að geta tekið þessa rimmu nokkuð örugglega svo fremi að gulir mæti klárir til leiks.
,,Rimman sjálf gegn Skallagrím leggst vel í mig og þetta er þriðja árið í röð sem við mætum þeim í fyrstu umferð og ég á von á fínni rimmu. Við í Grindavík erum í góðum gír og höfum verið að slípa okkur saman síðan Jamaal Williams kom til okkar og ég held að við förum í gegnum þetta einvígi,” sagði Þorleifur sem telur að Grindvíkingar verði að hafa góðar gætur á miðherja Skallagríms Darrell Flake.
,,Flake er gríðarlega sterkur og við þurfum að passa hann mjög vel. Skallagrímsmenn eru nokkuð óskrifað blað sem er hættulegt fyrir okkur. Þeim gekk ekki vel á lokasprettinum í deildinni og hafa verið að glíma við meiðsli en ef við mætum ekki tilbúnir í leikina þá eigum við tvímælalaust eftir að tapa þessu því þeir hafa gott lið. Ef við hinsvegar mætum klárir þá tel ég að við eigum að geta unnið þessa rimmu nokkuð örugglega,” sagði Þorleifur Ólafsson sem gert hefur að jafnaði 11,9 stig fyrir Grindavík í vetur.
VF-Mynd/ [email protected]– Þorleifur Ólafsson