Þorkell Máni ekki áfram í Keflavík
Styður liðið þó áfram
Þorkell Máni Pétursson mun ekki halda áfram sem aðstoðarþjálfari hjá Keflavíkingum í Pepsi-deild karla í fótbolta. Máni kom til starfa um mitt sumar þegar Kristján Guðmundsson tók við liðinu. Máni segist ekki geta haldið áfram í þjálfun vegna mikilla anna á öðrum vígstöðum.
„Þetta er of mikið álag á fólkið í kringum mig. Ég er að reka umboðsskrifstofu og fjölmiðlasamsteypuna Harmageddon. Ég fékk að fara í þetta ævintýri fyrir einstaka þolinmæði vinnufélaga míns en ég hef ekki tíma í að halda áfram,“ sagði Máni í samtali við Fótbolta.net.
Máni segir tíma sinn hjá Keflavík hafa verið stórkostlegan og að hann eigi eftir að sakna þess að þjálfa Keflavíkurdrengi. Hann segir jafnframt að fólkið í Keflavík sé eitt það alskemmtilegasta og frábærasta fólk sem hann hafi á ævinni kynnst.
Máni var einnig ánægður með samstarfið við Kristján Guðmundsson þjálfara Keflavíkur en alls er óvíst hvort Kristján verði áfram með liðið.
„Ég hef sjaldan séð aðra eins fagmennsku hjá einum þjálfara. Ef að Keflavík heldur leikmannahópi sínum og Kristjáni þá er ekki langt í að liðið verði komið þangað sem það á heima, í toppbaráttu í Pepsi-deildinni.“
Garðbæingurinn Máni segist ætla að styðja Keflvíkinga áfram. ,,Ég styð Keflavík og Stjörnuna. Ég verð í stúkunni með Má (Gunnarssyni) að styðja Keflavík en ég verð heima þegar Stjarnan og Keflavík mætast,“ sagði Máni í samtali við vefsíðuna.
Már Gunnarsson er stuðningsmaður númer eitt hjá Keflavík.