Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 20. febrúar 2002 kl. 18:42

Þorgrímur Árnason: Keflavík á nóg af peningum

Á aðalfundi Keflavíkur sem haldinn var í Kirkjulundi sl. mánudag bauð Þorgrímur Árnason sig fram í formennsku félagsins gegn sitjandi formanni Einari Haraldssyni. Þetta kom nokkuð á óvart enda hafa vanalega ekki verið mikil „átök“ á þessum fundum. Það varð því að grípa til kosninga en Einar sigraði þær nokkuð örugglega með 52 atkvæðum gegn 27.Þorgrímur Árnason
Þorgrímur Árnason, sem bauð sig fram gegn, Einari Haraldssyni, sitjandi formanni sagði að það hefðu verið nokkrir menn sem hafi leitað til hans og því hafi hann ákveðið að taka áskoruninni og bjóða sig fram til formanns.
„Það er búin að vera ákveðin óánægja með stjórnina og það var spurning um að skipta um mann í brúnni. Það er gott að skipta öðru hverju um fólk í svona batterýi og því er kannski ekki beint verið að lýsa vantrausti við Einar enda hefur hann skilað ágætu starfi fyrir félagið. Við töldum bara vera kominn tíma fyrir aðrar áherslur og önnur sjónarmið“.
Hverju vilt þú breyta?
„Það sem ég vildi gera var að ná farsælum enda á fjárhagsvandamálunum. Það eru til peningar hjá félaginu sem hægt er að nota til að hjálpa þeim deildum sem eiga í vanda. Einnig þurfum við að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur, þ.e.a.s. að félagið nái að safna upp slíkum skuldum. Það mætti t.d. koma með breytingar í stjórn á þá leið að þar væri einn gjaldkeri yfir öllum deildum sem hefði yfirumsjón yfir peningamálum og myndi sjá til þess að allt stæðist áætlanir. Það þyrfti að hafa meira aðhald“.
Voru vonbrigði að ná ekki kjöri?
„Þetta mál bar skjótt að þannig að það eru engin vonbrigði í sjálfu sér. Þetta verður þó vonandi til þess að stjórnin átti sig á því að það eru fleiri sjónarmið innan félagsins en þeirra. Tíminn verður svo að leiða það í ljós hvort ég bjóði mig fram að ári en við væntum breytinga“.

Einar Haraldsson
Einar Haraldsson sagði í samtali við blaðið að honum hafi fundist fundurinn mjög góður: „Þetta voru nú ekki mikil átök heldur voru menn einungis að skiptast á skoðunum og í stóru félagi eins og Keflavík eru ekki allir með sömu skoðanir og menn hafa mismunandi áherslur“.
Nú voru peningamálin í brennidepli eins og svo oft áður, hvernig finnst þér staðan?
„Fjárhagsstaða deilda innan félagsins er mismunandi. Hún gæti verið betri í nokkrum deildum. Ég er þó fullviss um að aðalstjórn og deildir félagsins finni lausn á þessum málum í sameiningu“.
Bæði fótboltinn og karfan eru í talsverðum vandræðum, verður hægt að halda þessum greinum uppi á fullu í framtíðinni?
„Ég er fullviss um að það verður hægt“.
Finnst þér að styrkir til félaganna eigi að skiptast eftir árangri?
„Já það mætti gera það að vissu marki“.
Það vakti athygli á fundinum að Þorgrímur bauð sig fram á móti þér, hvað fannst þér um það?
„Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að það er enn til fólk sem hefur áhuga á að starfa fyrir félagið og er tilbúið að efla veg og virðingu Keflavíkur“.
Finnst þér framboð hans lýsa vantrausti á þig eða stjórn félagsins?
„Nei á engan hátt“.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024