Þorgeir Grindavík Open meistari
Grindavík Open pílumótið fór fram í Festi í Grindavík um síðustu helgi þar sem Þorgeir Guðmundsson bar sigur úr býtum í A-flokki. Tæplega 40 keppendur tóku þátt í mótinu en þar af voru þrjár konur.
Þorgeir Guðmundsson sigraði í A-flokki eftir æsispennandi oddaleik gegn Ægi Erni Björnssyni. Leikið var í settum í mótinu í 501 fyrirkomulagi þar sem talið er niður og sá sem fyrstur fer niður í núll hefur sigur hverju sinni. Þorgeir vann A-flokkinn, í öðru sæti var Ægir Örn Björnsson og í þriðja sæti var Guðjón Hauksson.
Í B-flokki var Hallgrímur Egilsson í fyrsta sæti, Björgvin Sigurðsson í öðru og í þriðja sæti hafnaði Árni Andersen. Þorgeir og Ægir unnu sér inn flugmiða á opna skoska meistaramótið í pílukasti sem fram fer 17. febrúar en gert er ráð fyrir að fjölmennur hópur frá Íslandi fari út og fylgist vel með mótinu.
Mótshaldarar Grindavík Open vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til styrktaraðila og eru þegar farnir að ráðgera annað mót.
VF-myndir/ Þorsteinn G. Kristjánsson