Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þórarinn Kristjánsson... Ekki bara bjargvættur!
Föstudagur 13. ágúst 2004 kl. 22:09

Þórarinn Kristjánsson... Ekki bara bjargvættur!

Keflavík vann glæsilegan útisigur á Víkingi í kvöld, 2-3. Þórarinn Kristjánsson skoarði öll mörk Keflavíkur eftir að Víkingar höfðu komist 2-0 yfir.

Þórarinn hefur, þrátt fyrir ungan aldur, gengið undir nafninu „Bjargvætturinn“ um árabil þar sem hann hefur margoft reynst Keflvíkingum drjúgur á lokasprettinum og bjargað sínum mönnum fyrir horn. Eftir frammistöðu hans í síðustu leikjum er hann hins vegar kominn yfir það að vera bjargvættur og hefur skrifað sig í sögubækur Keflavíkur sem einn besti leikmaður þeirra frá upphafi.

Leikruinn byrjaði alls ekki gæfulega fyrir gestina þar sem Daníel Hjaltason kom Víkingum yfir úr vítaspyrnu sem þeir fengu eftir að Magnús Þormar í marki Keflavíkur braut á Viktor Bjarka Arnarsyni. Viktor var aftur á ferðinni á 25. mín þegar hann skoraði annað mark Víkinga. Sannkallað glæsimark af um 30m færi þar sem Viktor tók viðstöðulaust skot frá vinstri sem sveif yfir Magnús í marki Keflavíkur.

Þetta mark virtist vera stuðið sem Keflvíkingar þurftu og þeir fóru loks að spila eins og menn. Færin létu þó standa á sér þar til fimm mínútum fyrir leikhlé þegar Keflvíkingar fengu dæmda vítaspyrnu. Úr henni skoraði Þórarinn og munurinn var eitt mark, 2-1, þegar blásið var til hálfleiks.

Í seinni hálfleik mættu Keflvíkingar bandvitlausir til leiks og pressuðu Víkinga út um allan völl. Þeim héldu engin bönd og voru mjög ógnandi á vallarhelmingi Víkings. Loks kom að því, á 65. mínútu, að gestirnir jöfnuðu þegar Þórarinn skoraði glæsilegt mark með skoti fyrir utan teiginn hægra meginn. Boltinn söng í markmöskvunum, skotið gjörsamlega óverjandi fyrir Martin Trancíc í marki heimamanna.

Keflvíkingar höfðu tekið öll völd á vellinum og einungis tímaspursmál hvenær næsta mark kæmi.

Þórarinn kórónaði frammistöðu sína með þriðja markinu á 68. mínútu eftir góða aukaspyrnu Scott Ramsey frá hægri kantinum. boltinn sveif inn í teiginn og þar var Þórarin mættur og gulltryggði sigurinn.

Keflvíkingar fögnuðu ógurlega og nutu til þess fulltingis frábærra stuðningsmanna sem fylgdu sínum mönnum í bæinn og jörðuðu stuðningslið Víkinga.

Eftir Hörður Sveinsson komst nálægt því að skora eftir gott einstaklingsframtak næstu mínútu eftir markið. Hann prjónaði sig í upp í gegnum miðjuna og komst inn í teig en renndi knettinum rétt framhjá.

Víkingar lögðu allt sem þeir áttu í að jafna, en komust lítt áleiðis þar sem miðjan og vörnin voru þétt fyrir hjá Keflvíkingum.

Eflaust hefur þó farið um margan Keflvíkinginn þegar Dejan Miljanic fékk afbragðsgott færi til að jafna á 83. mínútu. Hann fékk háa sendingu fyrir markið og var einn og óvaldaður á teignum en skaut framhjá.

Fleiri urðu færi Víkinga ekki en Þórarinn var nálægt því að bæta fjórða markinu við undir lok venjulegs leiktíma. Þar skaut hann rétt yfir úr aukaspyrnu um 5m fyrir utan teig.

Leikurinn var flautaður af eftir að um 5 mín var bætt við og allt ætlaði um koll að keyra í herbúðum Keflavíkur. Milan Jankovic, þjálfari, skein af gleði í leikslok. „Það var bara eitt lið á vellinum eftir að við lentum undir. við vorum að skemmta okkur og leika okkar bolta og hver einasti leikmaður var að standa sig vel!“

Stefán Gíslason, fyrirliði Keflavíkur í kvöld, sagði að eftir slæma byrjun hafi aldrei verið spurning með hvort liðið væri betra. „Við mættum allt of seint í leikinn. Við náðum þó marki fyrir hálfleik og það skipti öllu. Svo rassskelltum við þá í seinni hálfleik. Þeir sáu bara ekki til sólar!“

„Ég er orðlaus!“ sagði hetjan Þórarinn Kristjánsson í leikslok. „Ég veit ekki hvað var í gangi í fyrri hálfleik en við áttum leikinn í þeim seinni. Það hlaut að koma að því að við hefðum heppnina með okkur, við erum með allt of gott lið til að vera í einhverri fallbaráttu.“ Þórarinn bætti því við að lokum að stuðningsmennirnir hafi verið frábærir. „Ég hef aldrei heyrt svona vel í þeim. Ef þeir verða svona á öllum leikjum eigum við eftir að vinna alla leiki.
VF-mynd/Þorgils Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024