Þórarinn ætti að vera klár gegn FH
Þórarinn Kristjánsson ætti að vera klár í slaginn gegn FH á sunnudag þegar Íslandsmeistararnir mæta í heimsókn á Keflavíkurvöll í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Þórarinn lék ekki með Keflavík í gærkvöldi þegar liðið lagði KR 1-2 í Vesturbænum.
Þórarinn meiddist á æfingu með Keflavík á sunnudag þegar liðband í ökkla tognaði smávægilega og því varð hann að fylgjast með félögum sínum úr stúkunni. ,,Ég ákvað að sparka í jörðina á æfingu fyrir KR leikinn og þá tognaði ég,” sagði Þórarinn kíminn en bætti við að Falur Daðason, sjúkraþjálfari Keflavíkur hefði tjáð honum að hann ætti að vera klár í leikinn á sunnudag.
,,Ég fylgdist hundfúll með úr stúkunni í gær en það var óneitanlega gaman að sjá strákana vinna KR. Við verðum að fylgja eftir þessum sigri gegn FH um helgina,” sagði Þórarinn að lokum.
Enn er óvíst hvenær búast megi við miðvarðaparinu Kenneth og Guðmundi Mete en báðir hafa þeir verið að glíma við meiðsli að undanförnu.