Þóranna með slitið krossband
-Emelía og Þóranna líklegast frá í níu mánuði
Þóranna Kika Hodge-Carr, einn fremsti leikmaður Keflvíkinga í Domino´s deildinni í körfubolta, er með slitið krossband í hnénu. Það kom í ljós fyrir helgi en Þóranna meiddist í síðasta leik fyrir undanúrslit Maltbikarsins. Þetta staðfestir Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir.
Í byrjun desember sleit Emelía Ósk Gunnarsdóttir, annar mikilvægur leikmaður liðsins, einnig krossbönd.
Emelía Ósk.
„Þóranna og Emelía fara í aðgerð mjög fljótlega og yfirleitt tekur þetta ferli um níu mánuði,“ segir Sverrir Þór, en eftir aðgerðina verða stelpurnar í höndum sjúkraþjálfara og svo styrktarþjálfara til að undirbúa endurkomu þeirra á körfuboltavöllinn. „Þær munu taka sér þann tíma sem þarf í þetta enda skiptir öllu máli að gefa sér góðan tíma í að byggja sig upp og alls ekki að byrja of snemma.“