Þjóðhagsspá: Framkvæmdir í Helguvík ekki á fullt fyrr en 2013
Reiknað er með fyrsta áfanga álversins í Helguvík og að framkvæmdir hefjist að litlu leyti árið 2012 en komi að mestu fram árin 2013–2014 í nýrri þjóðhagspá. Helsta breytingin frá því í síðustu spá sem kom í nóvember er að fyrirhuguðum framkvæmdum vegna kísilverksmiðju í Helguvík hefur verið bætt við atvinnuvegafjárfestingu. Áætlað er að hún kosti um 17 milljarða og falli að mestu til árin 2011 og 2012 þó að framkvæmdum ljúki 2013.
Áætlað er að atvinnuvegafjárfesting aukist um 28,1% í ár vegna umtalsverðrar aukningar í stóriðjufjárfestingu vegna kísilverksmiðjunnar og álverksmiðjunnar í Straumsvík, en minni aukning verður í annarri atvinnuvegafjárfestingu. Árið 2012 er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting aukist um 23,8% en þá ná framkvæmdir vegna kísilverksmiðjunnar hámarki og er jafnframt gert ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting aukist nokkuð. Þrátt fyrir nokkra aukningu fjárfestingar á spátímanum er áætlað að hlutur fjárfestingu í landsframleiðslu í lok spátímans verði undir meðaltali síðustu 20 ára.