Þjálfarinn ábyrgist sæti í úrslitum
Keflvíkingar mæta Víkingum í undanúrslitum bikarsins
Keflvíkingar hafa ekki sigrað á heimavelli í deildinni síðan 12. maí
Í kvöld fer fram einn af stærri knattspyrnuleikjum sem haldinn hefur verið á Nettóvellinum í Keflavík í langan tíma. Þá fá Keflvíkingar Víkinga í heimsókn en liðin freista þess að komast í sjálf bikarúrslitin. Keflvíkingar hafa síðan á sunnudag verið að jafna sig eftir ósigurinn gegn Valsmönnum í deildinni, bæði andlega og líkamlega að sögn Kristjáns Guðmundssonar þjálfara. Víkingar unnu sigur á Keflvíkingum fyrir skömmu í deildinni en þar eru þeir á mikilli siglingu, á meðan Keflvíkingar hafa ekki sigrað leik frá því 22. júní gegn Fylki á útivelli „Það er tengist ekkert þessum leik, gengi liðanna í deildinni. Allt sem á undan er gengið er aukaatriði og skiptir engu máli,“ segir Kristján. Keflvíkingar höfðu fyrir sigurinn gegn Fylki ekki sigrað í deildinni síðan 12. maí gegn Breiðablik á heimavelli. Það var síðasti heimasigur Keflvíkinga í deildinni. Síðan þá hefur liðið tapað fjórum leikjum, gert fimm jafntefli og sigrað einu sinni ef á heildina er litið. Keflvíkingar höfðu svo 6-1 sigur á Hamarsmönnum í átta liða úrslitum bikarsins.
„Við horfum ekkert endilega á úrslitin heldur framistöðuna. Þetta er ekki eins slæmt og fólk fyrir utan þennan hóp málar það. Fólk fer kannski meira eftir tilfinningum en við förum eftir rökum og eftir því sem við erum að gera,“ bætir þjálfarinn við. „Sjálfsagt er það aðeins auðveldara fyrir Víkinga að mæta á æfingu með bros á vör eftir sigurleiki að undanförnu. Það er mikill munur á því að vinna eða tapa fótboltaleikjum. Ég tel þó að þetta snúist ekkert um það sem á undan er gengið heldur um það hvernig við verðum tilbúnir í leikinn.“
Hefur þjálfarinn verið sáttur við spilamennski liðsins að undanförnu? „Á köflum. Við höfum viljað vinna leikina frekar en að hugsa um það að tapa ekki. Það er hugsun sem við verðum að temja okkur, að tapa ekki. Okkur langar auðvitað að vinna á heimavelli og reynum of mikið. Ég tel ekki slæmt að vilja vinna leiki, en það er bara svo hundleiðinlegt að tapa,“ segir Kristján.
Keflvíkingum gekk afar vel í upphafi móts en síðan hefur farið að halla undan fæti. „Í byrjun móts vorum við með alla menn heila og í toppstandi. Meiðsli hafa sett töluvert strik í reikninginn hjá okkur. Auðvitað höfum við aðeins dottið niður miðað við upphaf tímabils, stigasöfnunin segir það, en inn á milli erum við að ná góðum úrslitum,“ segir Kristján sem telur að Keflvíkingar þurfi að fara að stíga á bensíngjöfina. Hann er vongóður um að vinna leikinn í kvöld og ætlar sér með liðið í úrslit.
„Við höfum verið að leika okkur að því að tala um það að við séum að fara í bikarúrslitaleikinn en það er bara hluti af því að trúa því að við komust alla leið.“ Til þess að svo verði þurfa stuðningsmenn Keflvíkinga einnig að eiga góðan dag.
„Mér hefur þótt steminngin vera fín á pöllunum í sumar. Það er margt fólk sem fylgir okkur og kemur á leikina okkar það er mjög gott. Þetta helst allt í hendur, framistaða okkar og stuðningurinn. Við högum verið að komast yfir í flestum leikjunum og þá er fólkið með okkur. Um leið og við höfum farið að slaka á þá dettur aðeins niður stemningin á pöllunum og við áttum okkur alveg á því. Ef við erum að gera góða hluti inn á vellinum þá vitum við af því að fólkið styður okkur og myndar stemningu í stúkunni.“
Stuðningsmenn Keflavík, með Má Gunnarsson fremstan í flokki, hlutu verðlaun hjá knattspyrnuþættinum Pepsi-mörkunum sem bestu stuðningsmenn fyrri hluta Íslandsmótsins. „Við tökum það með okkur og fyllum á. Það hlýtur að verða stemning á Nettóvellinum í undanúrslitum í bikarnum.“ En eru Keflvíkingar á leið í úrslitin? „Já,“ segir Kristján sigurviss. Þú ábyrgist það? „Já, það er best ég geri það,“ sagði þjáfarinn að lokum.