Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þjálfari Keflavíkur tapaði veðmáli eftir tvo Íslandsmeistaratitla sama daginn
Sunnudagur 25. mars 2012 kl. 23:17

Þjálfari Keflavíkur tapaði veðmáli eftir tvo Íslandsmeistaratitla sama daginn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var stór dagur hjá Birni Einarssyni, þjálfara yngri flokka hjá Keflavík í dag en þá urðu tvö liða undir hans stjórn Íslandsmeistarar í körfubolta. Hann tapaði hins vegar veðmáli í tengslum við annan titilinn og hjólaði frá Vogaafleggjara á Reykjanesbraut upp á Ásbrú þar sem haldin var sigurveisla á Langbest í tilefni dagsins.

Björn stjórnaði fyrst 7. flokki kvenna í Toyota höllinni í Keflavík en liðið varð Íslandsmeistari annað árið í röð. Þjálfarinn dreif sig að leik loknum inn í Garðabæ og stýrði þar Keflvíkingum í minnibolta drengja en þeir háðu harða baráttu við Stjörnuna og Njarðvík en öll liðin áttu möguleika á sigri. Keflavíkurdrengirnir unnu bæði liðin og fögnuðu titlinum en þetta er í fyrsta sinn í 12 ár sem Keflavík vinnur í þessum flokki. Björn var sjálfur Íslandsmeistari með minnibolta flokki Keflavíkur í tvígang 1990-92. „Það var sérlega ánægjulegt að vinna þennan titil því það er ansi langt síðan að Keflavík var með besta strákalið landsins. Keflavík vann síðast titil í yngri flokkum drengja fyrir fjórum árum en vonandi veit þetta á gott. Minniflokkur drengja varð í 2. sæti í fyrra en nú tryggðu við okkur titilinn. Það var sætt,“ sagði Björn.

Telpnalið Keflavíkur í 7. flokki er eitt af mörgum firnasterkum kvennaliðum félagsins en í fyrra varð Keflavík Íslandsmeistari í öllum flokkum kvenna og bikarmeistari í öllum flokkum nema einum. Það þarf því ekki að fjölyrða um bjarta framtíð hjá kvenfólkinu.

Veðmálið sem Björn tapaði var gegn strákunum. Ef þeir myndu tapa myndu þeir tapa hárinu, verða krúnurakaðir en ef þeir ynnu myndi Bjössi hjóla frá Garðabæ til Keflavíkur. „Ég fékk séns á að hjóla frá Vogaafleggjara svo ég myndi ná í sigurveislu á Langbest klukkkan 19.15. Það var hörkumótvindur og þetta var ekki auðvelt. Ég fór lengri leiðina þegar ég kom í Njarðvík og hjólaði upp Grænásbrekkuna. Það tók á,“ sagði þjálfarinn sigurreifur, sæll og glaður með tvo Íslandsmeistaraflokka á sama deginum.

Björn Einarsson og nokkrir ungir Keflvíkingar með honum að hjólaferðinni lokinni. Að neðan má sjá alla liðsmenn beggja flokka fyrir utan Langbest þar sem titlunum var fagnað með góðri pizzu. VF-myndir/pket og Páll Orri.

-