Þjálfarabúðir hjá Heilsuskóla Keilis
Heilsuskóli Keilis stendur fyrir 3ja daga endurmenntunarnámskeiði fyrir fagfólk í þjálfun og heilsurækt dagana 23.-25. september sem kallst Þjálfarabúðir. Megináherslan er á þjálfun og næringu íþróttamanna og kennslan er í höndum þriggja heimsþekktra þjálfara frá USA sem munu ausa úr viskubrunni sínum um allt það nýjasta í næringu og þjálfun.
Við hittum á Gunnhildi Vilbergsdóttur, forstöðumann Heilsuskóla Keilis sem er í forsvari fyrir Þjálfarabúðirnar og spurðum hana út í hvernig gengi. „Skráningin gengur alveg ótrúlega vel og ég fæ marga skráningarpósta þar sem fólk þakkar sérstaklega fyrir að Keilir standi fyrir námskeiðum í þessum gæðaflokki og hvetur okkur áfram,“ segir Gunnhildur.
Aðspurð hvort margir þjálfarar frá Suðurnesjunum væru búnir að skrá sig sagði Gunnhildur að hún hefði búist við mun betri þátttöku frá íþróttahreyfingunni á Suðurnesjunum. „Það er góð þátttaka hjá sjúkraþjálfurum og styrktarþjálfurum en það eru engir íþróttaþjálfarar frá liðunum hér búnir að skrá sig til þátttöku en við erum að fá t.d. knattspyrnuþjálfara, körfuboltaþjálfara og skíðaþjálfara frá Akureyri, Egilsstöðum og Fáskrúðsfirði á námskeiðið. Það er líka mikið um að fólk þekki ekki þá styrki sem í boði eru til að endurmennta sig. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis borgar t.d. 75% af námskeiðsgjaldinu fyrir sína félaga og endurmenntunarsjóðir Kennarasambands Íslands eru drjúgir,“ segir Gunnhildur.
Gunnhildur talar um að kennararnir sem kenna á námskeiðinu koma allir frá USA og eiga það sameiginlegt að vera leiðandi á sínu sviði. Helgi Jónas Guðfinnsson, körfubolta- og styrktarþjálfari sem einnig kennir við Heilsuskóla Keilis hefur sótt mörg námskeið í þjálfun í Bandaríkjunum og þessir menn fá hans bestu meðmæli.
Fyrsta daginn kennir doktorsmenntaður næringarfræðingur, dr. Chris Mohr sem er ekki einungis sprenglærður í fræðunum heldur er sjálfur mikill íþróttamaður og hefur t.d. farið heilan Ironman sem er ein erfiðasta þrekkeppni sem til er og hann sinnir einnig næringarþætti úrvalsdeildarliðs í amerískum fótbolta. dr. Chris mun upplýsa þátttakendur um hvaða næring sé heppilegust fyrir og eftir keppni til að hafa sem mesta orku. Þá mun hann einnig fjalla sérstaklega um fæðubótaefnin kreatín, prótein, fitubrennsluvörur, amínósýrur og orkudrykki en engir tveir eru sammála um gæði og gildi þessara fæðubótaefna. Virkilega spennandi!
Annan daginn kennir einn þekktasti styrktarþjálfari sem komið hefur til Íslands. Það er hann Mike Boyle og mun hann taka fyrir starfræna þjálfun eða Functional training eins og það kallast. Starfræn þjálfunar ákveðin nálgun styrktarþjálfunar sem er að verða einna vinsælust og er kennd í ÍAK einkaþjálfun hjá Keili. „Styrktarþjálfun er að færast mikið úr þessari bodybuilding hugmyndafræði og áhersla er núna meira lögð á starfræna þjálfun sem einblínir á þjálfun á djúpvöðvum og jafnvægi. Æfingarnar eru líkari hreyfingum í daglegu lífi og í íþróttunum og sýnt hefur verið fram á miklu minni tíðni meiðsla hjá þeim sem þjálfa starfrænt. Menn eru alveg að missa sig yfir að Mike Boyle sé að koma en hann er hálfgerður guð hjá mörgum styrktar- og sjúkraþjálfurum,“ segir Gunnhildur.
Þriðja daginn kennir Dave Jack og hann mun kenna þjálfurum æfingaaðferðir sem skila hámarksárangri á sem skemmstum tíma og hann mun líka fjalla um huglæga þáttinn í þjálfun; hvernig góðir þjálfarar geta orðið betri og hvernig þjálfarar geta hjálpað sínum íþróttamanni að verða í hópi þeirra bestu. „Ég viðurkenni að ég hafði efasemdir um að fá þennan gæja þar sem hann er frekar ungur í faginu en Helgi Jónas fór á námskeið hjá honum í USA þar sem margir voru að kenna og hann sagði mig vera að gera stór mistök að taka hann ekki til Íslands því hann hefði verið alveg geggjaður á þessu námskeiði,“ segir Gunnhildur.
Þjálfarabúðirnar fara fram í Andrews Theater og í íþróttahúsinu á Ásbrú. Skráningu lýkur 15. september nema uppselt verði fyrr. Allar upplýsingar um Þjálfarabúðirnar má finna hér og skráning er á [email protected].