Þín eigin heppni
Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.
Það eru margir frasar sem eru sífellt notaðir í íþróttum. Æfingin skapar meistarann, einn leikur í einu, ertu blindur dómari, svona til að nefna nokkra. Einn af mínum uppáhaldsfrösum er þegar talað er um meistaraheppni. Ég veit ekki um neitt lið eða einstakling sem hefur orðið meistari á heppni. Það væri heppni ef að boltinn stefndi í bláhornið hjá þér og fugl kæmi fljúgandi fyrir skotið á síðustu stundu. Það þyrfti líka að gerast nokkra leiki í röð vegna þess að enginn verður meistari á því að vinna einn leik. Að horfa á eftir boltanum fara framhjá þér í stöngina og út er ekki heppni. Stöngin er þarna á sama stað allan leikinn og alla leiki. Leikmenn eru farnir að reikna með henni. Að dómarinn dæmi víti sem þú hefðir ef til vill ekki átt að fá er ekki heppni. Það hefur gerst áður og gæti gerst aftur.
Þeir sem vinna ekki leiki tala oft um óheppni. Síðasta skotið fór ekki ofan í, þessi dómari hefur eitthvað á móti mér, ég rann þegar ég ætlaði að skjóta. Þeir sem tapa hafa þessa frasa tilbúna í hrönnum eftir leik. Það má vel vera að þú lendir undir einhvern tímann út af óheppni. Sú óheppni varir samt sjaldnast í meira en augnablik. Fótboltaleikur er um 90 mínútur. Ef þú ert óheppinn í augnablik ætti að vera nógur tími hinar 89 mínúturnar að vera heppinn. Ef að einn leikur, eða jafnvel heilt mót, stendur og fellur með einu augnabliki til hvers þá að spila allar hinar mínúturnar. Það er ansi ódýr afsökun að kenna óheppni um tapaða leiki. Hvað þá heilt mót.
Meistarar skapa sér sína eigin heppni. Þeir koma sér í aðstæður þar sem að þeir gætu litið út fyrir að vera heppnir. Að skora mark á síðustu mínútu kann að virðast vera heppni. Tala nú ekki um ef það gerist oftar en einu sinni, þá er einmitt oft talað um þessa meistaraheppni. Hugsanlega er samt liðið að skora á síðustu mínútu vegna þess að þeir hafa æft vel allan veturinn fyrir mótið og eru í toppformi. Þess vegna eru þeir orkumeiri síðustu mínúturnar og geta tekið betri ákvarðanir en andstæðingurinn. Lið sem fá fleiri víti en andstæðingurinn gætu verið heppin. Það gæti líka verið það að liðið er duglegt að koma sér inn í vítateig andstæðinganna og þannig í hættulega stöðu sem bjóða upp á það að andstæðingurinn brjóti af sér.
Heppni og óheppni er eitthvað sem þú ræður ekki við. Þeir sem verða meistarar verða það ekki óvart. Þeir mæta ekki inn á völlinn trekk í trekk og vinna leiki án þess að vita almennilega hvað þeir gerðu. Enginn kemst í liðið af því að hann er svo góður að standa inni í teignum og fá boltann í sig og inn. Það er vinna að vera heppinn. Þú æfir og þú leggur þig fram til þess að komast í aðstæður þar sem þú getur verið heppinn. Það er ekki eintóm heppni að vera heppinn.