Þéttur varnarleikur tryggði Keflavík stig
Keflavíkingar gerðu markalaust jafntefli við Breiðablik í gær í Bestu deild karla í knattspyrnu. Eftir frekar tilþrifalítinn fyrri hálfleik léku gestirnir með vindinn í bakið í þeim seinni og lá þá svolítið á Keflvíkingum.
Varnarleikur heimamanna var vel skipulagður og þeir gáfu Blikum fá færi. Baráttugleði og samvinna var mikil og má sjá mikla bætingu í leik Keflavíkur í síðustu tveimur leikjum eftir niðursveiflu þar á undan.
Blikar pressuðu stíft í seinni hálfleik án þess þó að skapa sér mörg færi en þeir naga sig sennilega í handarbakið að hafa ekki nýtt sannkallað dauðafæri sem Klæmint Olsen fékk um tíu mínútum fyrir leikslok. Þá hafði Mathias Rosenorn varið en boltinn barst fyrir fætur Olsen sem skóflaði honum yfir nánast af marklínu – ótrúlegt klúður.
Keflvíkingar voru nærri því að refsa Blikum skömmu síðar þegar þeir sóttu hratt. Jóhann Þór Arnarsson fékk þá góða sendingu frá Stefáni Alexander Ljubicic inn fyrir vörn gestanna en skot hans fór hárfínt yfir markið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum þar sem hann ræddi við Sindra Snæ Magnússon eftir leik og tók meðfylgjandi myndir.