Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fimmtudagur 27. mars 2003 kl. 16:42

„Þetta var frábært, endalaus gleði“

Íris Edda Heimisdóttir var að vonum ánægð að loknu ÍMÍ mótinu í Eyjum um sl. helgi. Hún sagði að það hefði verið frábært að slá Íslandsmet Ragnheiðar Runólfsdóttur enda hafi hún lengi reynt við þetta met. „Ég var búin að æfa stíft fyrir þetta mót og oft verið nálægt metinu, aðeins nokkrum sekúndubrotum. Loksins tókst það og nú tók ég það með stæl“, sagði Íris í samtali við Víkurfréttir. Hver voru þín fyrstu viðbrögð?
Þegar ég kom að bakkanum leit ég ekki á klukkuna heldur beið og hlustaði á áhorfendur og þjálfarann hvort fagnaðarlætin væru mikil eða ekki, og þá leit ég á klukkuna. Mér var brugðið þegar ég sá tímann því ég bjóst ekki við því að vera 1.5 sekúndu undir metinu. Þetta var bara frábært, endalaus gleði.
Er ekki gaman að slá Íslandsmet?
Jú það er yndisleg tilfinning, ég er satt að segja enn að melta þetta. Þetta er líka mitt fyrsta einstaklings Íslandsmet í fullorðinsflokki en ég á nokkur í boðsundi og svo á ég nokkur stúlknamet.
Hvernig metur þú árangur þinn á mótinu?
Ég er mjög sátt við árangurinn. Ég synti 100 metra bringusund á laugardeginum en var aðeins frá Íslandsmetinu þar og var ekki sátt með það. Ég ákvað því að bæta um betur og taka hitt sundið með trompi. Ég synti einnig 50 metra bringusund. Ég er ekki þekkt fyrir að vera mikil sprettsundskona en bætti mig nú samt!
Hvað er næst á dagskrá hjá þér?
Næst á dagskrá hjá mér er Ungfrú Suðurnes sem er 12.apríl. Það er ekkert mikilvægt í sundinu fram að því þannig að ég get einbeitt mér að keppninni. Smáþjóðaleikarnir í Möltu í byrjun júní er annars það sem er næst á dagskrá í sundinu.
Ætlaru að halda áfram að synda næstu árin?
Já, já, svo lengi sem það gengur vel og áhuginn er til staðar seiglast ég áfram.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024