„Þetta kemur allt með kalda vatninu“
-Már Gunnarsson sló tvö Íslandsmet í sundi um helgina
Sundmaðurinn Már Gunnarsson hjá ÍRB setti tvö Íslandsmet á sundmóti SH um helgina. Metin setti hann bæði í 50 metra og 200 metra baksundi. Már bætti metið í 50 metra baksundi um tæplega tvær sekúndur og 200 metra baksundið um tæplega 12 sekúndur.
„Ég var mjög ánægður með árangurinn um síðustu helgi. Ég var búinn að gera mörg erfið baksundssett með Steindóri þjálfara. Þetta kemur allt með kalda vatninu,“ segir Már, en þegar Víkurfréttir náðu tali af honum var hann staddur í Lúxemborg þar sem leiðin lá til Póllands að keppa í söng- og spilamennskukeppni.
Í byrjun desember mun Már keppa á HM í Mexíkó, en hann hefur verið í stífum undirbúningi fyrir mótið allt síðasta ár. „Í upphafi átti ég að fara til Mexíkó í byrjun október, en út af jarðskjálftunum var mótinu frestað,“ segir Már sem stefnir að því að gera sitt besta á HM og bæta sig.