Þessi var fyrir pabba
sagði Katla Rún Garðarsdóttir sem skoraði sex þrista gegn Haukum
„Þessi var fyrir pabba,“ sagði Katla Rún Garðarsdóttir, leikmaður Keflvíkinga en hún var besti leikmaður liðsins í flottum 78:70 sigri á Haukum í Keflavík. Faðir hennar, Garðar Ketill Vilhjálmsson var á áhorfendabekkjunum og fylgdist með þegar dóttirin átti frábæran leik.
Katla er fyrirliði Keflavíkur en hún sagðist hafa verið í góðum gír í leiknum og segir að hún hafi fundið á sér að hún myndi setja lokaskotið ofan í en hún jafnaði leikinn 61:61 þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. „Já, ég fann bara á mér að ég væri að fara að setja lokaskotið. Ég ætlaði að láta Daníelu fá boltann en sá svo að það opnaðist fyrir skotið þannig að ég ákvað að skjóta eiginlega hugsunarlaust.“
Katla Rún segir að hún og liðsfélagar hennar séu duglegar að æfa skotin á æfingum og hún noti líka fleiri tækifæri til að taka auka skotæfingar í hádeginu en hún stundar nám í Háskólanum í Reykjavík.
Hún er bjartsýn á framhaldið hjá Keflavík. „Já, klárlega. Mér finnst fleiri leikmenn okkar vera að stíga upp í síðustu leikjum og við rífum hvor aðra upp. Stemmningin er góð í hópnum og við ætlum að standa okkur í vetur,“ sagði Katla Rún.