Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þessi barátta er orðin  voðalega þreytt
Fyrirliðinn Kristrún Ýr er öflug í vörn Keflavíkur. Hér er hún og Elfa Karen Magnúsdóttir að stöðva sóknarmann Vals á síðasta tímabili. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 22. apríl 2023 kl. 06:56

Þessi barátta er orðin voðalega þreytt

– segir Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur

„Ég er ótrúlega spennt og hlakka til að byrja. Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt tímabil,“ segir Kristrún Ýr í upphafi spjalls en Keflavík mætir Tindastóli í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í næstu viku.

Það hafa orðið miklar breytingar hjá ykkur, er liðið að slípast saman?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já, mér finnst það vera að slípast saman og við erum að fá hana Mikaelu að láni frá Breiðablik, Linli Tu er öll að koma til, hún er búin að vera að glíma við smávægileg meiðsli og hefur ekki getað spilað mikið með okkur en hún er virkilega spennandi leikmaður, sterk og grimm – það verður gaman að hafa hana þarna frammi.“

Svo eru nokkrar ungar í liðinu, eins og Alma Rós Magnúsdóttir.

„Jú, heldur betur. Þær eru nokkrar og það er rosalega skemmtilegt að fylgjast með þeim og sjá hvað þær eru að vaxa. Hvað gæðin eru orðin mikil hjá svona ungum leikmönnum.

Talandi um Ölmu, maður tekur alveg eftir henni. Hún er náttúrlega mjög ung og spennandi leikmaður – minnir mann mjög á Sveindísi og það er ekki leiðum að líkjast. Mjög fyndið að Sveindís var alltaf með tvíburunum Írisi og Kötlu [Þórðardætrum] og Alma er mjög mikið með tvíburunum Brynju og Önnu [Arnarsdætrum] sem eru líka að spila með okkur. Þannig að það er geggjað fyndið – þetta er svona svipuð uppskrift.“

Tímabært að setja fótinn niður

Nú hefur gengið á ýmsu utan vallar í aðdraganda móts.

„Já, heldur betur,“ segir Kristrún en hún og fyrirliðar allra liða í Bestu deild kvenna gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þær hörmuðu vinnubrögð Íslensks toppfótbolta [ÍTF]. Þær segjast vera búnar að fá nóg eftir ítrekuð atvik sem hafa komið upp og gera lítið úr íslenskri kvennaknattspyrnu „og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns – þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða,“ eins og segir m.a. í yfirlýsingunni (í rafrænni útgáfu Víkurfrétta má lesa yfirlýsinguna í heild sinni).

„Þegar svona gerist trekk í trekk getur maður ekki meir, það er ekki hægt að sópa öllu undir teppið. Okkur fannst orðið tímabært að setja fótinn niður og gera eitthvað, þetta var eins og að bæta gráu ofan á svart.“

Þið hafið ekki tekið mark á útskýringum forsvarsmanna ÍTF um að fyrstu kynningar hafi einungis verið til að auglýsa Bestu deild karla sem byrjaði á undan ykkur.

„Það lítur alls ekki út fyrir það. Það komu kvenleikmenn fram í þeirri auglýsingu en kynjakvótinn var alls ekki jafn – og samanborið  við auglýsinguna sem var gerð í fyrra þá er þetta stórt skref afturábak. Mér finnst líka leiðinleg athugasemd sem kom frá Þóri Hákonarsyni hjá ÍTF og er eiginlega orðlaus yfir þessu svari hans. Það er ekki bara auglýsingin, heldur líka Fantasy-leikurinn og tölfræðigögn sem eru ekki til staðar í kvennaboltanum og maður spyr sig: „Af hverju ekki?“ Allt svona er markaðsefni sem ýtir undir áhorf og iðkun þeirra yngri. Að hafa fyrirmyndir, þetta smitar út frá sér og byggir upp áhorf og spennu gagnvart leikjunum.

Allt svona finnst mér vera svolítið hulið ójafnrétti og það er víða að finna, mörg félög mættu líta inn á við.“

Hvernig gerðist þetta? Voru það bara fyrirliðarnir sem gáfu út þessa yfirlýsingu eða standa félögin við bakið á ykkur?

„Leikmannasamtök Íslands kom okkur saman og spurði okkur álits. Við vorum allar sammála um að okkur væri misboðið og núna væri kominn tími til að segja og gera eitthvað. Þá kom þessi tillaga að sniðganga kynningarfund ÍTF og mæta á leikinn,“ sagði Kristrún sem var einmitt á leiðinni á leik meistara meistaranna milli Vals og Stjörnunnar þegar viðtalið var tekið en kynningarfundurinn var settur rétt fyrir leikinn sem sýnir kannski svart á hvítu hversu ómeðvitaðir fulltrúar ÍTF eru um hvað sé að gerast í kvennaknattspyrnunni á Íslandi.

Heldurðu að þið komið til með að mæta seinna í tökur á kynningarefni fyrir Bestu deild kvenna?

„Það er góð spurning og verður bara að koma ljós. Þetta er eitthvað sem við verðum að koma saman og taka sameiginlega ákvörðun um, ég ætla aðeins að sjá hvernig þetta þróast og hvort þeir taki einhverja ábyrgð að þessu. Mér finnst frábært að þetta vakti athygli, í kvöld spila stelpurnar með fjólublá armbönd sem tákn fyrir jafnrétti – en núna ætla ég að einbeita mér að fótboltanum og tímabilinu sem er að fara í hönd. Þessi barátta er orðin voðalega þreytt og tekur frá manni orku og gleði. Þetta á að vera sjálfsagt og það á að ríkja jafnrétti hér á landi samkvæmt lögum.“

Besta deild kvenna að hefjast

Nú hefjið þið leik í Bestu deild kvenna í næstu viku þegar þið farið á Sauðárkrók og mætið Tindastóli.

„Já, við förum á Krókinn fyrst og svo förum við á Akureyri. Þannig að við byrjum á tveimur erfiðum útileikjum en erum tilbúnar í þann slag.“

Nú er Tindastóli spáð níunda sæti og falli.

„Já, við reynum að horfa sem minnst í þessar spár og einbeita okkur að okkur sjálfum og gera betur en í fyrra.“

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Það hafa orðið miklar breytingar hjá okkur en heilt yfir hefur það gengið vel. Við erum að slípa okkur saman og finna besta liðið. Undirbúningurinn hefur gengið svolítið upp og niður en það þarf ekki að vera neitt slæmt, finna út hvað þarf að bæta fyrir mót. Við horfum á það þannig.

Með nýjum þjálfara hafa komið nýjar áherslur og svo hefur leikmannahópurinn tekið breytingum. Við erum komnar með stelpur sem komu frá ÍBV, gríðarlega sterkar og góðir leikmenn. Svo erum við með nýjan markmann sem hefur mikinn metnað og lítur vel út. Ég er mjög bjartsýn á að við eigum eftir að koma á óvart í sumar,“ sagði fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm að lokum.


Kristrún Ýr og Alma Rós á æfingu með Keflavík en Kristrún segir Ölmu minna á Sveindísi Jane Jónsdóttur sem leikur nú með einu sterkasta liði Evrópu, Wolfsburg í Þýskalandi.


Alma Rós: Ung og upprennandi

Víkurfréttir heyrðu í ungstirninu Ölmu Rós Magnúsdóttur þegar hún var nýkomin af æfingu með U15 landsliði Íslands í knattspyrnu en hún lætur sér ekki eitt landslið duga heldur er hún líka í U15 í körfuknattleik. Við byrjum á að spyrja Ölmu hvort hún hafi tíma fyrir eitthvað annað en íþróttirnar.

„Varla en jú, jú. Ég læt þetta einhvern veginn ganga upp, finn alltaf einhvern tíma aflögu,“ segir hún hlæjandi. „Ég hef æft báðar íþróttir mjög lengi. Byrjaði í fótbolta strax í boltaskóla og í körfunni í öðrum bekk.“

Nú hefur þú verið að æfa með meistaraflokki og fengið að spila nokkra leiki, hvernig finnst þér það?

„Mér finnst það mjög gaman, það er áskorun að æfa með þeim – en það er svolítið erfitt.“

Ertu búin að fá mörg tækifæri með liðinu í vor?

„Já, frekar mörg. Eiginlega fleiri en ég átti von á,“ segir þessi efnilega knattspyrnukona sem hefur fengið að spreyta sig í nokkrum stöðum í vor; byrjaði á kantinum en hefur líka verið framarlega á miðju og svo í sókninni.

Alma Rós í sigurleik gegn Aftureldingu í Lengjubikarnum í byrjun tímabils. VF/JPK


Hvað ertu eiginlega orðin gömul?

„Ég er fimmtán ára.“

Verður þú þá ekki að fara að ákveða hvora íþróttina þú ætlar að velja? Verður það ekki erfitt?

„Sko, ég veit að ég mun velja fótboltann. Núna er karfan orðin svolítið aukagrein hjá mér og fótboltinn gengur fyrir.“

Hún Kristrún talaði um að þú minntir hana svo mikið á Sveindísi Jane, ekki bara sem leikmann heldur líka af því að þú ert alltaf með tvíburum ...“

„Já! Oh my God!“ hrópar Alma upp yfir sig og hlær. „Þú meinar – það er ekki leiðinlegt að líkjast henni,“ sagði hún að lokum en það verður áhugavert að fylgjast með Ölmu í sumar en þarna er augljóslega mikið efni á ferð. Spurning hvort hún verði Þýskalands- og bikarmeistari með Wolfsburg innan fárra ára eins og Sveindís Jane.

Sveindís Jane Jónsdóttir varð Þýskur meistari og bikarmeistari með Wolfsburg á síðasta ári. Wolfsburg er komið í bikarúrslit og situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildar kvenna, einu stigi á eftir toppliði Bayern sem þær slógu úr bikarnum um síðustu helgi. Mynd af Facebook-síðu Icelandic Football League