Theódór tilbúinn að sanna sig
Raðar inn mörkum með Njarðvík
Theódór Guðni Halldórsson stimplaði sig rækilega inn hjá Njarðvíkingum í fyrsta leik sínum í 2. deild karla í knattspyrnu. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleik gegn Dalvík, eða ekta„ hat trick“ eins og það kallast á enskri tungu. Njarðvíkingar unnu 2-6 sigur í leiknum. Theódór var nýlega lánaður til Njarðvíkinga frá Keflavík en þar hafði hann verið í hóp að undanförnu og komið við sögu gegn FH-ingum á dögunum. Hann segist hafa verið reiðubúinn til þess að sanna sig með Keflvíkingum og viðurkennir að það hafi komið honum nokkuð á óvart þegar honum var boðið að fara yfir til Njarðvíkinga.
Theódór sem er uppalinn hjá Keflavík hefur að mestu fengið tækifæri í æfingaleikjum en hann er nú 20 ára og of gamall til þess að leika með 2. flokk félagsins. „Það var kominn mikill fiðringur í mig og ég hlakkaði til þess að mæta á æfingar áður en Kristján kallaði mig til sín. Ég er svosem ánægður með að hafa farið á lán. Mér finnst samt persónulega að ég sé tilbúinn í baráttuna með Keflavík. Kannski veit ég bara ekki betur.“ Elías Ómarsson, 18 ára liðsfélagi Theódórs úr Keflavík hefur verið á undan í goggunarröðinni en Theódór segir heilbrigða samkeppni ríkja þeirra á milli. „Það er smá samkeppni þarna, en Elías er toppstrákur sem á skilið þann séns sem hann er að fá.“
Eftir þrennuna með Njarðvík þá hringdi Kristján þjálfari og hrósaði Theódóri fyrir frammistöðuna. „Það var gott að heyra í honum. Ég er ánægður að hann sé að fylgjast með.“ Theódór kann vel við sig hjá Njarðvík en hans metnaður liggur fyrst og fremst í því að sanna sig hjá Keflavík. „Ég er með mikinn metnað og vonast til þess að fá möguleika í efstu deild.“
Í fyrsta leik hjá Njarðvík fór Theódór beint inn í byrjunarliðið. „Ég finn fyrir því að þeir hafa trú á mér. Mér finnst ég hafa sannað það að þjálfararnir hafi haft rétt fyrir sér,“ segir Theódór að lokum en þess má geta að í öðrum leik sínum með Njarðvík skoraði Theódór sigurmarkið í 1-0 sigri á Hetti.