Thelma Dís og Emilía áfram hjá Keflavík
Thelma Dís Ágústsdóttir, leikmaður Keflavíkur í körfuknattleik, mun spila áfram með liðinu á næsta tímabili. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari liðsins staðfesti þetta í samtali við VF en áður hafði karfan.is greint frá málinu. Þá segir að Thelma hafi verið að skoða skóla erlendis en ætli að skoða þá aftur að ári liðnu.
Í fyrra skilaði Thelma að meðaltali ellefu stigum, sjö fráköstum og þremur stoðsendingum í leik, en Keflavík varð bæði Íslands- og bikarmeistari.
Í viðtali VF við Sverri eftir að Keflavík hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn fyrr í vor sagði hann líkur á því að Thelma og Emilía Ósk Gunnarsdóttir færu utan en það hefði verið mikil blóðtaka fyrir liðið. Sverrir sagði við VF að líklega færi Emilía ekki heldur og myndi spila með Keflavík á næstu leiktíð.