Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Þeir verða ekkert sætari en þetta“
Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, fagnaði vel og innilega að leikslokum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 25. júlí 2023 kl. 09:09

„Þeir verða ekkert sætari en þetta“

– sagði Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, eftir sigur á Haukum

Þróttur vann sætan sigur á Haukum í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik sýndu Þróttarar mikinn karakter, stigu upp og lönduðu sigri undir lok leiks. Með sigrinum blandar Þróttur sér í toppbaráttuna og er fjórum stigum frá efsta liði.

Þrótturum gekk illa að koma sér í gang og gestirnir nýttur sér það með marki undir lok fyrri hálfleiks (45'). Áfram voru Þróttarar þó á hálfum hraða, voru ekki að fara af fullum hug í tæklingar og Haukar höfðu yfirhöndina á miðjunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, lét sína menn óspart heyra í seinni hálfleik að hann væri ekki ánægður með gang mála. Það skilaði árangri, Haukur Leifur Eiríksson kveikti neistann þegar hann fór í harða tæklingu og slapp með gult spjald. Hann var ekki hættur, óð strax í aðra tæklingu og Þróttarar fylgdu hans fordæmi. Heimamenn settu allt á fullt og uppskáru mark í kjölfarið.

Þróttarar sóttu stíft í lok leiks og uppskáru tvö mörk þótt þessi færi ekki inn.

Eftir harða sókn og gott skot frá Stefáni Jóni Friðrikssyni, sem markvörður Hauka varði vel, boltinn barst að lokum fyrir mark gestanna þar sem fyrirliðinn sjálfur, Adam Árni Róbertsson, kom aðvífandi og skoraði jöfnunarmark Þróttara (82').

Haukur Leifur kórónaði svo leik sinn með sigurmarki í uppbótartíma eftir smá darraðadans fyrir framan mark Hauka (90'+3).

Haukur Leifur steig upp manna fyrstur og aðrir Þróttarar fylgdu hans fordæmi.

Með sigrinum er Þróttur í fimmta sæti 2. deildar, fjórum stigum frá toppliði Víkings Ólafsvík og þremur stigum frá Reyni/Dalvík sem er í öðru sæti.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Vogunum og spjallaði við Brynjar Gestsson eftir leik. Myndasafn er neðst á síðunni.

Þróttur - Haukar (2:1) | 2. deild karla 24. júlí 2023