„Þakklát þeim sem hafa staðið þétt við bakið á okkur“
– segir Kristín Örlygsdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Hún hefur upplifað síðasta árið sem stórfurðulegt en er full tilhlökkunar yfir því að körfuboltinn sé að fara af stað aftur.
– Þetta hefur verið ótrúlegt ár, hvernig hefur þú sjálf upplifað það?
„Stórfurðulegt ár og einkennilegt,“ segir Kristín aðspurð um hvernig hún hafi upplifað síðasta ár. „Stórfurðulegt en hefur farið ágætlega í mig og alla í kringum mig. Það eru kostir í öllu líka, það má ekki einblína á það neikvæða – ég er svolítil Pollý-anna í mér. Það eru líka litlu, góðu hlutirnir í lífinu sem skipta máli. Hraðinn hefur minnkað hjá manni, sem er kannski af hinu góða líka. Auðvitað hefur þetta farið illa með marga, fólk sem hefur misst vinnu og annað, og maður hugsar til þeirra sem hafa misst lífsviðurværi sitt og nákomna.“
Nú þegar íslenski körfuboltinn er loksins að fara aftur af stað segir Kristín tilhlökkunina vera mikla hjá öllum sem koma að starfi körfunnar í Njarðvík. „Við sprungum bara út á föstudaginn, það fór bara allt á fullt og þvílík tilhlökkun. Maður biður ekki um meira en að leikirnir séu settir af stað, hitt verður bara að bíða og maður sættir sig við það eins og allir aðrir. Tilhlökkunin er sérstaklega mikil hjá leikmönnum og þjálfurum, þetta er búið að vera ótrúlega krefjandi tímabil – á okkur í stjórninni líka, að þurfa að halda tempóinu gangandi og fjárhagnum í lagi, það er auðvitað engin innkoma. Þetta hefur tekið á, maður er að vinna í leiðinlegasta hlutanum í tíu mánuði án þess að nokkuð jákvætt komi á móti. Samt sem áður hefur þetta gengið vel, ég er með frábært fólk með mér í stjórn. Fólk sem er alltaf tilbúið að leggja erfiði á sig og svo erum við með ótrúleg fyrirtæki á bak við okkur. Við erum þvílíkt auðmjúk yfir því hvað þau hafa staðið þétt við bakið á okkur í svona langan tíma án þess að neitt sé að gerast. Mörg þessara fyrirtækja eru engin stórfyrirtæki, þetta eru fjölskyldufyrirtæki sem eru að leggja til samfélagsins. Maður tekur bara hattinn ofan fyrir þeim. Þetta er búinn að vera þungur róður en við lítum bara björtum augum á framtíðina.“
Hlutirnir látnir ganga upp
Kristín segir að allir hafi unnið sem einn til að láta hlutina ganga upp, leikmenn, þjálfarar og aðrir sem að deildinni koma. Erlendir leikmenn liðsins óskuðu eftir því fyrir áramót að fá að fara til sinna heima þar sem þeir gætu verið með fjölskyldum sínum. „Þeir voru að veslast upp, voru bara korter í þunglyndi. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir erlenda atvinnumenn sem eru hvorki í vinnu eða skóla, þeir hýrðust bara inn á herbergi í Playstation. Gátu ekki farið á æfingu eða neitt. Þeir báðust bara aflausnar sem við skildum auðvitað fullkomlega.“
– Þið eruð komin með nýja leikmenn.
„Já og við bíðum bara spennt eftir að fá þá á parketið til okkar. Það er tilhlökkun í því.“
– Eru þeir komnir úr sóttkví og klárir í slaginn?
„Nei, við erum mjög ábyrg með fjárhaginn og það allt saman – þannig að við ákváðum að bjóða leikmönnum ekki upp á að koma hingað í óvissuna. Þeim var bara gefið grænt ljós um leið við sáum fram á að það yrði spilað.“
– Og eru þeir allir klárir?
„Já, allir nema Maciek [Baginski]. Hann er meiddur – svo er drengurinn líka að fara að eignast barn þannig að hann þarf að fara í sóttkví.“
Er í fleiri stórum verkefnum
Kristín hefur í nógu að snúast fyrir utan körfuboltann. Hún er meðal eigenda í fyrirtækinu Hólsfjalli sem rak gistiheimili á Ásbrú en er núna að fara að reisa fjölbýlishús við Hafnargötu 12. „Við höfum verið að vinna í þessu síðustu tvö ár, keyptum Hafnargötu 12 og fengum Jón Stefán Einarsson hjá JeES arkitektum og verkfræðistofuna RISS til að teikna fyrir okkur. Við höfum verið á fullu að vinna í þessu verkefni, núna erum við búin að fá öll tilskilin leyfi og erum í startholunum til að fara að byggja þar íbúðir.
Vonandi byrjum við á næstu vikum. Við ætluðum af stað um það leyti sem WOW fór á hliðina svo þá ákváðum við að halda að okkur höndum. Núna er mikil þörf á litlum íbúðum, hagstæðum en samt gerlegum og flottum.
Þetta er á besta stað í Keflavík og eitthvað sem bærinn er líka búinn að vera að vinna í, þ.e. að gera miðbæinn meira aðlaðandi. Það verður aldrei neinn lifandi miðbær nema fólk búi þar. Þegar fólk býr á svona stað þarf það í rauninni ekki einu sinni að vera á bíl. Þetta er frábært tækifæri fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum og líka fólk sem vill minnka við sig, það er nóg af þeim á Suðurnesjum,“ segir Kristín full af eldmóði að lokum.