Þakkir til klúbbfélaga GS – Íslandsmót í golfi 2011
Íslandsmót í golfi 2011 sem haldið var á Hólmsvelli lauk s.l. sunnudag eftir ánægjuríka viku í Leirunni. Golfklúbbur Suðurnesja sá alfarið um framkvæmd mótsins og fékk fyrir það fyrstu einkunn frá Golfsambandi Íslands, þátttakendum og fjölmiðlum sem fjölluðu um mótið. Umgjörð og skipulag mótsins var til stakrar fyrirmyndar, og ástand golfvallarins var með því besta sem þekkist á Íslandi. 135 keppendur hófu leik í mótinu, auk þess sem fjöldinn allur af gestum lögðu leið sína í Leiruna til að fylgjast með og sjá yngri eldri kylfinga sína hæfileika sína á golfvellinum. Þrír keppendur GS enduðu á meðal tuttugu efstu, þ.e. þeir Örn Ævar Hjartarsson í 10. sæti og Davíð Jónsson í 19. sæti og Karen Guðnadóttir í 14. sæti.
Það er heilmikið mál að taka að sér framkvæmd stærsta golfviðburðar á Íslandi, en í GS er rík hefð fyrir því að taka þátt, og sjá um að halda stórviðburði í þessari skemmtilegu keppnisíþrótt. Til gamans má geta þess að GS hefur ellefu sinnum haldið Íslandsmót í Leirunni og 17 sinnum hampað Íslandsmeistaratitli karla og kvenna, frá stofnun klúbbsins 1964. Geri aðrir betur!
Að framkvæmd þessa móts komu vel á annað hundrað klúbbfélaga sem lögðu á sig ómælda vinnu án endurgjalds og tóku frá sinn eigin frítíma til að hjálpa klúbbnum við verkefnið. Auk þess naut klúbburinn stuðnings fjölda fyrirtækja og einstaklinga með aðgangi að tækjum, búnaði og vinnu.
Fyrir allt þetta er ég afar þakklátur og stoltur sem klúbbfélagi og færi öllum þeim sem komu að þessu verkefni bestu þakkir fyrir. Hólmsvöllur í Leiru skartar nú sínu fegursta og hvet ég alla að nýta tímann vel og njóta góðra stunda á golfvellinum með fjölskyldu og vinum.
Með golfkveðju,
Sigurður Garðarsson, formaður