Það kemur til greina að hefja tímabilið með Grindavík
Grindvíski körfuknattleikslandsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson er enn án liðs fyrir tímabilið sem er hafið í flestum löndum í kringum okkur en Subway-deild karla var einmitt að byrja. Jón Axel er nýkominn frá Bandaríkjunum, n.t.t. frá San Francisco en þar eru ríkjandi NBA-meistarar, Golden State Warriors, með sínar bækistöðvar. Piltur tók þátt í sumaræfingabúðum liðsins og þótt vel hafi gengið þá fékk hann ekki samning að þessu sinni en stendur til boða að reyna fyrir sér aftur að ári. Jón Axel var þarna að etja kappi við reynda NBA-leikmenn eins og Kenneth Fared, Ben McLemore o.fl. og stóð sig vel en sumir vilja meina að pólitík sé víst í gangi varðandi að komast að hjá liðum í NBA-deildinni og kapallinn gekk ekki upp að þessu sinni.
En hvernig standa þá leikar?
„Umboðsmaðurinn minn er að vinna í mínum málum í Evrópu en ég endaði tímabilið í fyrra í Þýskalandi og hef ýmsa möguleika þar. Ég hóf tímabilið með Fortitudo Bologna á Ítalíu en eftir einn leik var skipt um þjálfara og sá nýi talaði varla við okkur útlendingana og því vildi ég breyta til og endaði með Crailsheim Merlins í Þýskalandi. Ég byrjaði atvinnumannaferilinn einmitt þar tímabilið á undan, lék með Fraport Skyliners.“
Jón Axel átti frábæran feril með Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum en með þeim skóla lék einmitt aðalstjarna Golden State, Stephen Curry. Hann æfði með kappanum fyrir skemmstu og ber honum vel söguna:
„Ég hafði auðvitað hitt Curry á Davidson-árunum en hann er mikill aðdáandi liðsins og kom oft á leiki og hitti okkur á eftir. Það var öðruvísi að æfa með honum og eftir fyrstu æfinguna spjölluðum við í tvo klukkutíma um lífið og tilveruna. Þetta er einn mesti „down to earth“-gæi sem þú finnur á jörðinni! Hann er hörkugolfari og hefur spilað hér á Íslandi og ég átti einmitt að spila með honum í fyrrasumar þegar hann var hér á Íslandi en hann vill endilega koma aftur og vill þá prófa besta golfvöllinn, Húsatóftavöllinn í mínum heimabæ, Grindavík.”
Gróa á Leiti settið dæmið upp þannig í sumar að annað hvort myndi Jón Axel spila á Golden Bay Area eða í Grindavík, kemur enn til greina að spila með heimaliðinu?
„Það kemur alveg til greina að spila á Íslandi en þó með þann möguleika að geta farið út ef gott tilboð berst að utan. Það eru alltaf miklar hreyfingar á þessum leikmannamarkaði og ég hef ekki stórar áhyggjur af því að vera ekki kominn með lið á þessum tímapunkti. Ég er að jafna mig á meiðslum og vil því flýta mér hægt en það kemur alveg til greina að hefja tímabilið hér á Íslandi og þá að sjálfsögðu með Grindavík. Ég er búinn að vera æfa með liðinu, hér er taugin,“ segir Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, atvinnumaður í körfubolta.