Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Það helsta úr íþróttum ársins 2020
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 18. janúar 2021 kl. 08:34

Það helsta úr íþróttum ársins 2020

Sveindís Jane skoraði tvö í sínum fyrsta A-landsleik. Mynd: Fótbolti.net

2020 var ár Sveindísar Jane

Afrekalisti Sveindísar Jane Jónsdóttur á árinu 2020 er langur, hún fór á láni frá Keflavík til Breiðabliks og varð Íslandsmeistari með þeim, þá varð hún markahæst og valin sú besta í Pepsi Max-deildinni. Sveindís kom sem nýliði inn í A-landsliðið, fór beint í byrjunarlið þar sem hún stóð þig ótrúlega vel og eru þær komnar í úrslitakeppni EM – og síðast en ekki síst er Sveindís búin að landa samningi við þýska knattspyrnuliðið Wolfsburg, eitt besta félagslið í Evrópu. Hún verður á láni í eitt ár hjá Kristian-stad í sænsku deildinni. Þá komst hún í byrjun þessa árs á lista UEFA sem ein af tíu efnilegustu knattspyrnukonum Evrópu.

Bæði lið Keflvíkinga leika í efstu deild í ár.

Bæði lið Keflavíkur í efstu deild

Knattspyrnutímabilið fór ekki varhluta að kórónuveirufaraldrinum og Knattspyrnusamband Íslands ákvað í lok október að hætta keppni í knattspyrnu. Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi ákvörðunnar sóttvarnaryfirvalda að herða sóttvarnarreglur vegna kórónuveirunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Lengjudeild karla urðu Keflvíkingar deildarmeistarar og leika í efstu deild að ári en Grindvíkingar enduðu í fjórða sæti og leika annað tímabil í Lengjudeildinni.

Það var orðið ljóst að Keflavík myndi enda í öðru sæti Lengjudeildar kvenna og leika þær einnig í efstu deild á næsta ári.

Grindvíkingar urðu deildarmeistarar í 2. deild kvenna, þær voru tveimur stigum á eftir HK þegar leik var hætt en áttu leik til góða. Grindavík endaði því í efsta sæti með fleiri stig að meðaltali en HK.

Í 2. deild enduðu Þróttarar í þriðja sæti og Njarðvíkingar í því fjórða. Þróttur var hársbreidd frá því að komast upp í næstefstu deild en liðið gerði jafntefli í síðasta leik sínum og missti þar með Selfoss því upp fyrir sig. Víðismenn luku því miður leik í ellefta sæti og leika því í 3. deild á næsta ári.

Reynismenn voru þegar búnir að tryggja sér sæti í 2. deild og enduðu í öðru sæti 3. deildar.

Joey Gibbs var á skotskónum síðasta sumar.

Keflavík á flesta leikmenn í liði ársins

Joey Gibbs leikmaður Lengjudeildarinnar

Keflvíkingar eiga fimm leikmenn í liðinu, þá Sindra Þór Guðmundsson, Nacho Heras, Rúnar Þór Sigurgeirsson, Davíð Snæ Jóhannsson og Joey Gibbs, auk þess sem ástralski markahrókurinn Joey Gibbs var valinn besti leikmaðurinn.

Keflavík stóð uppi sem Lengjudeildarmeistari 2020 og þótti leika frábærlega í sumar. Liðið skoraði 57 mörk í nítján leikjum, af þeim átti Gibbs 21 mark. Bæði Keflavík og Joey Gibbs voru hársbreidd frá því að slá markamet deildarinnar þegar mótið var blásið af.

Það var frábær stemmning í kringum lið Þróttar á síðasta tímabili.

Þrír Suðurnesjamenn í annarrar deildarliði ársins

Hemmi Hreiðars þjálfari ársins

Njarðvíkingarnir Marc McAusland og Kenneth Hogg ásamt Andy Pew úr Þrótti eru allir í liði ársins í annari deild karla en allir voru þeir máttarstólpar í sínum liðum. Hogg var öflugur með Njarðvík í sumar og skoraði þrettán mörk á meðan fyrirliðinn Marc var öflugur í vörninni. Andy Pew, fyrirliði Þróttar og spilandi aðstoðarþjálfari, var einnig mikilvægur hlekkur í liði Þróttara.

Hermann Hreiðarsson tók við liði Þróttar Vogum í sumar og var valinn þjálfari ársins. Hann hefur verið að gera góða hluti með Þróttara sem náðu besti árangri í sögu félagsins og voru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í næstefstu deild.

Magnús Þorsteinsson tók fram skóna á ný.

Magnús Þorsteinsson í þriðju deildarliði ársins

Fufura Baros og Strahinja Pajic „á bekknum“

Það er athyglisvert að þótt Reynir hafi tryggt sér örugglega sæti í annarri deild á næsta ári þá á liðið aðeins einn leikmann í úrvalsliði þriðju deildar. Reynismenn unnu þrettán leiki, gerðu þrjú jafntefli og töpuðu fjórum leikjum, svo það er óhætt að segja að liðsheildin hafi gert gæfumuninn.

Markahrókurinn Magnús Sverrir Þorsteinsson tók fram skóna á ný eftir þriggja ára hlé og sýndi að hann hefur engu gleymt, skoraði fimmtán mörk í fjórtán leikjum, og uppskar sæti í liði ársins.

Natasha Anasi varð önnur í valinu um besta leikmann Lengjudeildar kvenna.

Keflvíkingar eiga þrjár í liði ársins

Knattspyrnumiðillinn Fótbolti.net valdi úrvalslið ársins í Lengjudeild kvenna fyrir helgi og þar eru þrír Keflvíkingar í liðinu. Keflavík átti stórgott tímabil og tryggði sér sæti í efstu deild á næsta ári.

Celine Rumpf og Paula Isabelle Germino Watnick voru báðar valdar í úrvalsliðið auk fyrirliðans Natasha Anasi sem varð einnig í öðru sæti í vali leikmanns ársins.

Þrír Grindvíkingar valdir í lið ársins

Vefmiðillinn Fótbolti.net valdi einnig úrvalslið ársins í annarri deild kvenna fyrir helgi, í liðinu eru þrír leikmenn Grindavíkur auk þess að tveir eru á bekknum. Grindavík vann deildina og náði settu markmiði, að komast í Lengjudeildina á ný.

Markvörðurinn Veronica Blair Smeltzer var valin í úrvalsliðið auk þeirra Þorbjargar Jónu Garðarsdóttur og Birgittu Hallgrímsdóttur, þá voru þær Guðný Eva Birgisdóttir og Una Rós Unnarsdóttir valdar sem varamenn í liðið.

Ray Anthoni Jónsson var valinn þjálfari ársins en hann lauk sínu þriðja tímabili með liðið og hætti að því loknu.

Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar Noregsmeistaratitlinum ásamt liðsfélögum sínum í Vålerenga.

Ingibjörg leikmaður ársins í norsku deildinni 2020 og tvöfaldur meistari með Vålerenga

Ingibjörg átti frábært tímabil í norsku deildinni og auk þess að vinna tvöfalt var hún valin leikmaður ársins. Ingibjörg hefur einnig verið lykilleikmaður í íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM en hún hefur leikið 35 leiki fyrir A landslið Íslands. Þámvar Ingibjörg einnig valin Grindvíkingur ársins 2020.

Arnór Ingvi fagnar marki.

Arnór Ingvi Svíþjóðarmeistari

Arnór Ingvi Traustason varð sænskur meistari með Malmö. Suðurnesjamaðurinn var hins vegar ekki í landsliðshópi Íslands gegn Ungverjum þar sem hann greindist með Covid-19 eftir að smit kom upp í herbúðum Malmö.

Þetta er í annað sinn sem landsliðsmaðurinn verður meistari með liði í Svíþjóð. Hann vann titilinn með Norrköping árið 2015.

Arnór Ingvi var í íslenska landsliðshópnum sem mætti Englandi á Laugardalsvelli og Belgum í Brussel í september og í umspili gegn Rúmenum í október.

Pálmi Rafn stendur á milli stanganna hjá Úlfunum.

Pálmi Rafn samdi við Úlfana

Markvörðurinn Pálmi Rafn Arnbjörnsson skrifaði undir atvinnumannasamning við efstu deildarlið Wolverhampton Wanderers í Englandi. Hann fór til liðsins haustið 2019, rétt áður en hann varð sextán ára, og hefur æft og keppt með yngri liðum liðsins.

Pálmi gerði samning við Úlfana í lok nóvember 2019, þá aðeins fimmtán ára gamall, og hefur nú í haust æft með átján ára liði félagsins. Þar til Pálmi gekk til liðs við Úlfana hafði hann stundað knattspyrnu hjá Njarðvík frá því hann var ungur strákur. Síðustu ár hefur hann verið valinn í yngri landslið Íslands og á hann að baki ellefu landsleiki með yngri landsliðum Íslands. 

Elías skorar grimmt í hollensku deildinni.

Elías markahæstur í hollensku B-deildinni

Elías Már Ómarsson hefur verið á skotskónum með liði sínu, Excelsior í Hollandi, en Keflvíkingurinn var orðinn langmarkahæsti leikmaður B-deildarinnar í knattspyrnu í Hollandi í lok síðasta árs.

Framherjinn úr Keflavík hefur skorað sautján mörk á tímabilinu, þar af tvær þrennur.

Grindvíkingurinn Daníel Leó skipti yfir í enska boltann.

Daníel Leó til Blackpool

Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson sagði skilið við norska knattspyrnuliðið Aalesunds FK og gerðit tveggja ára samning við enska knattspyrnufélagið Blackpool FC sem leikur í ensku C-deildinni.

Daníel var í herbúðum Álasunds síðan 2015 og lék yfir 100 leiki með liðinu á þessum fimm keppnistímabilum. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í byrjun árs þegar Ísland sigraði Kanada 1:0 og að auki hefur Daníel leikið sex leiki með U21 og tíu leiki með U19 landsliðum Íslands.

Samúel staldraði stutt við í Þýskalandi.

Samúel Kári til norsku Víkinganna

Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson gekk til liðs við norska félagið Víking frá þýska félaginu Paderborn.

Samúel fór til Þýskalands í byrjun árs og lék með liðinu þar til tímabilinu lauk í vor. Samúel skrifaði undir rúmlega tveggja ára samning við norsku Víkingana sem hann lék með á lánssamningi frá Valerenga árið 2019. Hann varð bikarmeistari með norska liðinu, lék 33 leiki með því og skoraði fimm mörk.

Engir Íslandsmeistarar í körfunni

Keppnistímabilið 2019–2020 í körfuknattleik var slegið af þann 14. mars 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-19. Keppni var því aldrei kláruð og ekkert lið krýnt Íslandsmeistari en Stjarnan varð deildarmeistari Domino’s-deildar karla og Valur deildarmeistari Domino’s-deildar kvenna.

Þegar keppni var blásin af var Keflavík í öðru sæti Domino’s-deilda karla, Njarðvík í því fimmta og Grindavík í áttunda. Keflvíkingar voru í þriðja sæti Domino’s-deildar kvenna en Grindavíkingar í áttunda og neðsta sæti, Grindavíkurstúlkur féllu því í 1. deild.

Í 1. deild kvenna var staða Suðurnesjaliðanna þannig að Keflavík-b endaði í þriðja sæti, Njarðvík í fjórða og Grindavík-b í því sjötta.

Geysisbikarinn

Reynismenn komust í aðra umferð bikarkeppninnar eftir sigur á ÍA en í annari umferð mættu þeir Stjörnunni sem sló þá út. Það var Suðurnesjaslagur í sextán liða úrslitunum þegar Keflvíkingar mættu Njarðvíkingum í Njarðtaksgryfjunni. Keflvíkingar höfðu betur en töpuðu fyrir Fjölni í næstu umferð. Grindvíkingar komust í úrslit Geysisdeildar karla á síðasta ári og mættu Stjörnunni í úrslitaleik í Laugardalshöllinni. Stjarnan fór með sigur af hólmi en góður árangur hjá Grindvíkingum engu að síður.

Suðurnesjaliðin Njarðvík og Keflavík mættust einnig í Njarðtaksgryfjunni í fyrstu umferð Geysisbikars kvenna, þar fór Keflavík einnig með sigur af hólmi en féll svo úr keppni eftir tap gegn KR í átta liða úrslitum. Grindavík sat hjá í fyrstu umferð og mætti Haukum í átta liða úrslitum en það voru Haukastelpur sem höfðu betur og fóru áfram.

Katla Rún var valin í kvennalandslið Íslands.

Körfuknattleiksfólk af Suðurnesjum í landsliðum Íslands

Suðurnesjamennirnir Hörður Axel Vilhjálmsson (Keflavík), Jón Axel Guðmundsson (Fraport Skyliners)  og Sigtryggur Arnar Björnsson (Grindavík) léku með íslenska landsliðinu í Slóvakíu þar sem Ísland mættiLúxemborg þann 26. nóvember og Kosovó þann 28. nóvember í forkeppni að HM 2023. 

Þær Katla Rún Garðarsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir frá Keflavík voru valdar sem nýliðar inn í kvennalandslið Íslands í landsliðsglugga FIBA sem fram fór á Grikklandi, í Heraklion á eyjunni Krít í öruggri „kúlu“ sem FIBA setti upp fyrir öll liðin í A-riðli undankeppninnar. Katla Rún var í leikmannahópnum en Anna er valin sem þrettándi leikmaður liðsins.

Sara Rún í leik með Leicester Riders.

Sara Rún körfuknattleikskona ársins 2020

Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir, sem leikur með Leicester Riders á England, er að hljóta nafnbótina körfuknattleikskona ársins í fyrsta sinn en hún hefur verið meðal fremstu körfuknattleikskvenna Íslands undanfarin ár. 

Í umsögn sem Körfuknattleikssamband Íslands sendi frá segir: „Sara Rún, sem er uppalin í Keflavík, hefur frá unga aldri verið framúrskarandi leikmaður sínum flokkum og með meistaraflokki hér heima. Sara Rún hefur haldið áfram að bæta sinn leik jafnt og þétt á undanförnum árum. Sara Rún lék með Canisius-háskólanum í Bandaríkjunum í fjögur ár með námi og samdi svo við Leicester Riders í Bretlandi í fyrra. Síðastliðið vor varð hún bikarmeistari með sínu liði og var valinn besti leikmaður liðsins í úrslitunum. Í deildinni var hún að skora tæp sautján stig og taka sex fráköst að meðaltali í leik en liðið hennar var í fyrsta til öðru sæti þegar deildin var stoppuð vegna heimsfaraldursins. Með íslenska landsliðinu hefur Sara Rún tekið stórt skref í framlagi en hún sýndi styrk sinn í landsleikjunum tveim í nóvember og sannaði að hún getur verið einn af burðarásum liðsins á næstu árum. Þá leiddi hún liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum, það er yfir stig, fráköst og stoðsendingar og var besti leikmaður liðsins í leikjunum tveim.“

Jón Axel varð ekki fyrir valinu í nýliðavali NBA.

Jón Axel tók þátt í NBA-nýliðavalinu

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Fraport Skyliners í efstu deild í Þýskalandi, tók þátt í NBA-nýliðavalinu sem fram fór í nóvember.

Jón Axel kláraði glæsilegan háskólaferil sinn með liði Davidson síðastliðið vor áður en hann gerðist atvinnumaður hjá Fraport Skyliners í þýskalandi þar sem hann hefur farið vel af stað.

Gríðarlegur fjöldi leikmanna er á hverju ári í valinu en eingöngu 60 leikmenn eru valdir í tveimur umferðum. Jón Axel var ekki valinn að þessu sinni en vitað var af áhuga nokkurra liða, þeirra á meða eru Charlotte Hornets, Sacramento Kings og Golden State Warriors sem nefnd voru til sögunnar.

Elvar Már hefur staðið sig vel með liði sínu í Litháen.

Elvar góður í Litháen en erfitt hjá liðinu 

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson gekk til liðs við Siauliai í LKL deildinni í körfubolta í Litháen á síðasta ári.

Elvari hefur gengið vel í Litháen, hann er að meðaltali þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar, auk þess að vera sá stoðsendingingahæsti og framlagshæsti í deildinni.

Siauliai er í neðsta sæti deildarinnar, hefur aðeins unnið tvo leiki í fyrstu ellefu umferðunum. 

Róbert Sean (lengst til vinstri) lék sinn fyrsta leik með úrvalsdeildarliði Njarðvíkur gegn Fjölni í efstu deild í mars 2020.

Ungur körfuboltakappi úr Njarðvík til félags á Spáni

Njarðvíkingurinn Róbert Sean Birmingham gekk til liðs við Baskonia á Spáni og leikur með unglingaliði Baskonia.

Róbert er fimmtán ára gamall og hefur leikið með öllum yngri flokkum Njarðvíkur. Þá fékk hann tækifæri með úrvalsdeildarliði UMFN í Domino’s-deildinni á síðasta tímabili þegar hann skoraði sín fyrstu stig í efstu deild gegn Fjölni í Njarðtaksgryfjunni. Þá hefur Róbert leikið með yngri landsliðum Íslands. Brenton, faðir hans, lék lengst af með Njarðvík en einnig með Grindavík. Hann er einn af bestu erlendu leikmönnum sem hafa leikið hér á landi.

Saski Baskonia leikur bæði í ACB og EuroLeague og er staðsett í Vitoria-Gasteiz á Spáni. Liðið er sem stendur ríkjandi Spánarmeistari, en frá aldamótum hafa þeir í fjögur skipti orðið meistarar.

Loksins hola í höggi hjá einum besta kylfingi Suðurnesja.

Loksins!

„Þetta var fáránleg tilfinning,“ sagði Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, tífaldur klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja og einn besti kylfingur sem Suðurnesin hafa alið. Hann byrjaði í golfi árið 1983, hefur verið lengi í keppnisgolfi og er enn að.

Rúnar varð stigameistari Golfsambands Íslands árið 2001 og endaði í sjöunda sæti á mótaröð GSÍ í ár. Afrekalistinn er langur; Rúnar hefur fengið óteljandi fugla, erni og meira að segja albatros ... en eitt átti hann eftir – að fara holu í höggi.

Það tókst loks á árinu 2020. „Alveg fáránleg. Ég var búinn að leika ágætlega, var á parinu þegar ég kom á áttundu. Ég hefði alveg verið til í hætta eftir níu. Ég fékk skolla á tíundu og elleftu ... og stóð alveg á sama.

Já, ég get strokað þetta út af „Bucket“-listanum. Þá á ég bara eftir að sigra Íslandsmót 35 ára og eldri – geri það á næsta ári!,“ sagði Guðmundur Rúnar skælbrosandi eftir að hafa náð langþráðu takmarki.